Íslandsbankaskýrslan: Ekki fást skýringar á hvernig tilboðin voru metin – Lestu skýrsluna hér

Bankasýslunni var ekki kunnugt um rauneftirspurnina eftir bréfum í 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í söluferli bréfanna. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna sem birt var í morgun. Í skýrslunni er dregin upp mynd af fjölmörgum vanköntum við söluna og aðdraganda hennar. Við lestur skýrslunnar má sjá að Vanmat á eftirspurn, vegna takmarkaðrar greiningar á svokallaðri tilboðabók kunni að að hafa haft áhrif á niðurstöðuna og skaðað hagsmuni ríkissjóðs.

Í skýrslunni kemur fram að þann 20. maí 2022 hafi Ríkisendurskoðun óskað eftir því að Bankasýsla ríkisins myndi útvega afrit af tilboðabók söluferlisins eins og hún leit út þegar ákvörðun var tekin um leiðbeinandi lokaverð.


Heildareftirspurn við mismunandi gengi hafði þá verið dregin saman í Excel-skjali með töflu sem sýndi einnig umframeftirspurn við gengi frá 110 til 125 kr. á hlut. Þær upplýsingar voru jafnframt settar upp á myndrænan hátt.
Við greiningu Ríkisendurskoðunar á umræddu skjali komu í ljós annmarkar í útreikningum þar sem fjöldi færslna í skjalinu, meðal annars reitir sem innihéldu fjárhæð tilboða fjárfesta, var ekki færður inn á réttu formi, heldur ýmist með erlendri kommusetningu eða fjárhæðum skilgreindum sem texta. Það leiddi til þess að Excel–töflureiknirinn nam þau ekki sem tölulegar upplýsingar. Umrædd tilboð birtust því ekki í fyrrnefndri töflu í skjalinu sem sent var Ríkisendurskoðun og sýndi heildareftirspurn við mismunandi gengi né þeirri mynd sem teiknuð var upp af eftirspurninni.

Gera má þannig ráð fyrir að vanmatið megi rekja annað hvort til mistaka eða vanþekkingar á notkun Excel skjala. Í skýrslunni segir:

“ Svör Bankasýslu ríkisins til Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands í maí 2022 staðfesta að stofnunin var ekki meðvituð um hver heildareftirspurn fjárfesta var þegar ákvörðun um leiðbeinandi lokaverð var tekin.
Vegna þessa hafði stofnunin ekki fullnægjandi upplýsingar um raunverulegt umfang eftirspurnar fjárfesta við þá ákvörðun. Ríkisendurskoðun telur að ítarlegri greining gagna, t.d. með notkun sérhannaðra upplýsingakerfa við utanumhald tilboða, hefði getað veitt betri yfirsýn um raunverulega eftirspurn og lagt grunn að nákvæmara mati á verðmyndun.“

Í skýrslu Ríkisendurkoðunar segir að þar sem markmið um að ná fram umframeftirspurn í söluferlinu náðist hafi orðið að skerða hlut einstakra tilboðsgjafa við úthlutun hlutabréfanna. Tilboð um kaup á genginu 117 kr. á hlut eða
hærra námu eins og áður segir 148,4 ma. kr. Það var tæplega þrefalt framboð bréfa sem var að fjárhæð 52,7 ma. kr. á umræddu sölugengi. Vegið meðaltal skerðinga var 65,3% en úthlutun til einstakra tilboðsgjafa var skert á bilinu 38–98%.

Samkvæmt Bankasýslunni reyndu stofnunin og ráðgjafar hennar að ákvarða „eftir bestu getu“ hvaða fjárfesta mætti annars vegar flokka sem langtíma- og hins vegar skammtímafjárfesta. Um var að ræða eitt af sex viðmiðum sem Bankasýslan lagði til í rökstudda mati sínu til ráðherra að höfð yrðu að leiðarljósi við úthlutun til tilboðsgjafa. Ekki fór fram ítarlegri kynning á því hvernig til stóð að beita viðmiðunum við úthlutun eða skerðingu hlutabréfa til einstakra
tilboðsgjafa eða flokka áður en fjármála- og efnahagsráðherra féllst á tillöguna og veitti stofnuninni heimild til að ljúka söluferlinu í samræmi við hana.

Vægi hvers og eins af viðmiðunum sex lá ekki fyrir þegar ákvörðun um skerðingu tilboða var tekin og hvorki hafa fengist fullnægjandi svör frá Bankasýslunni um það, né hvernig viðmiðunum var beitt við úthlutunina. Þar af leiðandi liggur ekki fyrir með skýrum hætti hvernig tilboðin voru metin. Þá er ekki fyllilega ljóst hvað réð flokkun fjárfesta í langtíma- og skammtímafjárfesta. Það er því niðurstaða Ríkisendurskoðunar að ákvarðanir Bankasýslunnar um niðurskurð á tilboðum hafi að miklu leyti byggt á huglægum forsendum.

Smelltu hér til þess að lesa skýrsluna

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila