Íslenska óperan sýnir Madame Butterfly í Eldborg

Arnheiður Eiríksdóttir óperusöngkona fer með eitt aðalhlutverkana

Íslenska óperan mun sýna óperuna Madama Butterfly eftir Puccini 4. mars kl 19.30 í Eldborg og verður óperan sýnd allar helgar í mars. Óperan er harmþrungin örlagasaga um ástina og löngunina eftir betra lífi og þykir ein sú allra fallegasta sem samin hefur verið.

Levente Török stjórnar uppfærslunni en hann þykir einn áhugaverðasti ungi hljómsveitarstjórinn í óperuheiminum í dag. Hann er fastráðinn í Schwerin í Þýskalandi auk þess sem hann kemur fram sem gestastjórnandi víða um heim.

Michiel Dijkema leikstýrir uppfærslunni, en hann hefur leikstýrt fjölmörgum uppfærslum víða um heim og hlotið einróma lof gagnrýnenda og frábærar viðtökur. Hann hannar sjálfur leikmyndina en María Th. Ólafsdóttir hannar búningana og Þórður Orri Pétursson lýsinguna.

Sópransöngkonan Hye-Youn Lee fer með titilhlutverkið en hún hefur sungið þetta hlutverk víða um heim og hvarvetna fengið frábæra dóma. Einvala lið íslenskra óperusöngvara kemur fram í sýningunni m.a. þau Egill Árni Pálsson, Arnheiður Eiríksdóttir sem er fastráðin óperusöngvari við Óperuhúsið í Tékklandi, Hrólfur Sæmundsson og Snorri Wium sem fara með stærstu hlutverkin.

„Það er okkur sérstök ánægja að setja upp þessa mögnuðu óperu sem ekki hefur heyrst á Íslandi í næstum 30 ár með þessu frábæra listafólki sem skapar töfrandi galdur á sviðinu bæði í leik og söng sem við vonum að sem flestir fái notið“ segir Steinunn Ragnarsdóttir óperustjóri Íslensku óperunnar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila