Jón Gnarr: Komið nóg af pólitík – þurfum nýja orku

Það er nóg komið af pólitík og við þurfum nýja orku hér í samfélagið því það er hér kergja í mörgum og offramboð af leiðindum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Jóns Gnarr forsetaframbjóðanda og fyrrverandi borgarstjóra í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Staða Jóns í samfélaginu einstök

Jón segir að hans staða í þjóðfélaginu sé nokkuð einstök og hann eigi í nokkuð sérstöku sambandi við þjóðina. Hann sjálfur hafi þurfti að glíma við áskoranir í lífinu. Hann sé til dæmis lesblindur og með ADHD og hafi verið utanveltu í skólakerfinu og því þurft að hafa mikið fyrir lífinu. Hann segir ýmsir þeir eins og hann hafi þurft að glíma við svipaða hluti hafi kannski ekki fengið nægileg tækifæri til þess að blómstra og því hafi slíkir einstaklingar oft endað í láglaunastörfum eins og umönnunarstörfum. Því hafi Jón kynnst sjálfur að eigin raun. Sem forseti myndi hann gjarnan vilja styðja við þá sem eru í þeim sporum og tala máli þeirra.

Margt í dag sem minnir á efnahagshrunið

Hann segir að stemningin nú í samfélaginu ekki ólík þeirri þegar hann kom fram með Besta flokkinn með eftirminnilegum hætti en þá hafi þjóðin verið að koma út úr bankahruninu. Nú hafi stýrivextir til dæmis verið háir um langa hríð, matvara hækkað mikið í verði, hörmungar dunið yfir Grindavík svo því sé stemningin alls ekkert ólík þeirri sem þá var.

Tilkynnti á Útvarpi Sögu að hann ætlaði að bjóða fram í borgarstjórnarkosningum

Í þættinum rifjaði Arnþrúður upp að þegar Jón hafi komið fram með Besta flokkinn hafi menn spáð því að flokkurinn fengi ekkert fylgi. En í skoðanakönnun hér á Útvarpi Sögu hafi Jón hreinlega slegið í gegn og mældist ítrekað í könnunum stöðvarinnar með 6 til 8 menn inni. Þessu hafi margir ekki viljað trúa og voru fullir efasemda. Jón hinsvegar tilkynnti á Útvarpi Sögu að hann ætlaði að slá til og gefa kosta á sér sem borgarstjóri enda varð það raunin í kosningunum 2010 og Besti flokkurin fékk glæsilega útkomu og 6 menn í borgarstjórn og Jón varð borgarstjóri eins og frægt er.

Besti flokkur Jóns Gnarr mældist ítrekað með 6-8 menn í skoðanakönnunum Útvarps Sögu

Forsetinn á að vera stemningsmaður

Hann segir að honum finnist nóg komið af pólitík og hér vanti nýja orku inn í samfélagið og honum finnist því vanta mann eins og hann á Bessastaði. Jón segir að honum finnist forsetinn eigi fyrst og fremst að vera stemningsmaður sem komi fram fyrir hönd Íslands út á við en hann eigi heldur ekki síst að standa með þjóð sinni og sér í lagi þeim sem höllum fæti standa. Forsetinn eigi að blása þjóðinni kjark í brjóst og vera til staðar þegar eitthvað bjátar á en líka samgleðjast með henni þegar vel gengur.

Embættið á ekki að vera snobbembætti

Jón segir mikilvægt að embættið sé ekki snobbembæti þó það sé vissulega nauðsynlegt að það hafi ákveðna virðingu. Hann segir bilið milli virðuleika og snobbs vera afar þunna línu. Þá segir Jón að honum finnist forsetinn eigi að vera meiri menningarfulltrúi heldur en stjórnmálaleiðtogi og segir Jón að honum finnist menningarhlutann oft falla í skuggann af pólitíkinni.

Tæki fyrirhugaða sölu á Landsvirkjun alvarlega

Hvað málsskotsréttinn varðar segir Jón að ef hann myndi skynja mikla óánægju með eitthvað sem þingið sé að senda frá sér og fólk sé jafnvel að safna undirskriftum þá sé það eitthvað sem forsetinn þurfi að taka tillit til og vega og meta. Hann segir að hann myndi til dæmis taka sölu á Landsvirkjun alvarlega í því tilliti.

Hlusta má á skemmtilega og ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila