Kaup Landsbankans vekja kurr innan veggja Valhallar

Stjórn Varðar, kjördæmis- og fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, kom saman til fyrsta fundar eftir aðalfund nú síðdegis. Fundurinn mótmælti harðlega kaupum Landsbankans á TM og lýsir yfir fullum stuðningi við fjármála- og efnahagsráðherra í að halda þeirri stefnu á lofti og koma í veg fyrir yfirvofandi þjóðnýtingu fyrirtækis í samkeppnisrekstri. 

Mikils óróa gætir innan raða Sjálfstæðisflokksins með ákvörðun bankans að kaupa tryggingafélagið TM en bankasýslan var ekki upplýst um ákvörðun bankans. Þá hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, óskað eftir upplýsingum frá bankanum um hvernig staðið var að ákvörðun bankans. 

„Nauðsynlegt er að fá upp á yfirborðið hvernig bankanum dettur hug að fara gegn eigandastefnu ríkisins. Enda er það með hreinum ólíkindum að bankinn skuli taka svona stórar stefnumótandi ákvarðanir þvert á eigandastefnuna. Það hlýtur að segja sig sjálft að ríkið á ekki að vasast í rekstri fyrirtækja á samkeppnismarkaði. Og það er á þeirri forsendu sem við í stjórn Varðar, stærsta kjördæmis- og fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins, og raunar landsins alls, látum í okkur heyra,“ segir Albert Guðmundsson, formaður Varðar. 

Í ályktun stjórnar Varðar er útvíkkun á starfsemi bankans harðlega mótmælt.

„Stjórn Varðar, kjördæmis- og fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, mótmælir harðlega framgöngu Landsbankans í útvíkkun á starfsemi sinni. Hún gengur gegn stefnu stjórnvalda og eigendastefnu ríkisins. Jafnframt lýsir stjórn Varðar yfir fullum stuðningi við fjármála- og efnahagsráðherra í að halda þeirri stefnu á lofti og koma í veg fyrir yfirvofandi þjóðnýtingu fyrirtækis í samkeppnisrekstri.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila