Kenna ætti stjórnarskrána í skólum

Það ætti að taka upp kennslu um stjórnarskrána í skólum svo fólk þekki réttindi sín allt frá unga aldri. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Stjórnsýsla Íslands í mínum augum í gær en þar ræddi Kristján Örn Elíasson við þá félaga Arngrím Pálmason og Halldór Sigurþórsson.

Arngrímur bendir á að þegar Sturla Jónsson fór í forsetaframboð um árið hafi hann ljáð máls á þessu og hafði á orði að kenna ætti stjórnarskrána allt frá leikskólastigi og upp úr.

Halldór greindi frá því í þættinum að þegar hann bjó í Bandaríkjunum sem barn hafi börnum þar verið kennt að bera virðingu fyrir þjóðfánanum og eftir þá kennslu hafi börnunum verið kennt á stjórnarskrána.

„og öll þau ár sem ég var í barnaskóla í Bandaríkjunum var alltaf verið að kenna okkur stjórnarskrána og auðvitað á að gera þetta hérna á Íslandi líka“

Halldór bendir á að gerð hafi verið skoðanakönnun hér á landi um hvort fólk hefði lesið stjórnarskrána og kom þá í ljós að einungis 20% þeirra sem spurðir voru höfðu lesið stjórnarskrána, Halldór efast þó um að þessi 20% hafi skilið stjórnarskrána og hvaða þýðingu hún hefði.

„en ef það eru bara 20% sem hafa lesið stjórnarskrána þá er auðvitað enginn vandi fyrir stjórnmálamenn og fleiri slíka aðila að blekka almenning, það er bara mjög auðvelt að blekkja almenning þegar hann hefur ekki lesið og þekkir ekki stjórnarskrána“ segir Halldór.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila