Kominn á slóðir pólitískra tengsla í Íbúðalánasjóðsmálinu

Eftir að hafa kafað djúpt í söluna á eignum Íbúðalánasjóðs í nokkur ár hefur Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins komist að því að það sé pólitísk slóð í málinu, slóð sem tengist Framsóknarflokknum. Það sé einungis tímaspursmál hvenær það komi upp á yfirborðið. Þetta kom fram í máli Þorsteins í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Þorsteinn segir að þegar bylgjan sem nú rís í Lindarhvolsmálinu taki að róast verði farið á fullt í að afla frekari upplýsinga um hvernig pólitískum tengslum við Framsóknarflokkinn við mál Íbúðalánasjóðs sé háttað og það verði svo gert opinbert. Það sem liggi nú þegar fyrir að fjöldi þeirra eigna sem seldar voru hafi farið til stórra aðila á leigumarkaði, til dæmis Heimavalla sem nú heita Heimstaden og staðsett er í Noregi.

Þorsteinn sem rætt hefur við nokkurn fjölda fólks sem selt hafi verið ofan af segir að fólkið tjái honum það að það hafi verið farið rangt að þegar íbúðirnar voru boðnar upp og jafnvel ekki hafa verið farið að lögum.

„og í öllum þessum tilfellum er sama staðan uppi, fólk er auðvitað í losti, það er að missa sína íbúð sem er allt sem það á, og það koma allt að fimm lögfræðingar og fulltrúar sýslumanns inn í eldhúsið eða inn á gang og selja ofan af þeim. Fólk jafnvel fraus og hafði því ekki getu til þess að mótmæla þessu“segir Þorsteinn.

Hann segir að það hafi verið erfitt fyrir fólk að verjast ágangi þessa fólks sem seldi ofan af því eignirnar og standa uppi í hárinu og því óvisst um hver réttur þeirra væri. Þorsteinn segir að það sé svo þyngra en tárum taki að þetta sama fólk og missti eignir sínar séu svo núna jafnvel að leigja hjá sömu aðilum og hirtu eignirnar þeirra.

Þorsteinn segir að meðal næstu skrefa í málinu sé meðal annars að komast að því á hvaða verði Íbúðalánasjóður hirti eignirnar af fólki. Það liggi fyrir hvert söluverðið var og hverjir hafi keypt en nú sé nauðsynlegt að fá að vita á hvaða verði Íbúðalánasjóður hirti eignirnar.

„það hefur komið fram hjá mjög mörgum af þeim sem áttu íbúðirnar og ég hef talað við að eign sem var kannski tekin á fimm milljónir sem dæmi því þær hafi oft verið teknar samkvæmt andvirði lánsins hafi verið seld nokkrum vikum síðar á tvöföldu verði oft á tíðum en samt þó á gjafverði“

Þá segir Þorsteinn að það sé rannsóknarefni út af fyrir sig sú harka sem fólk var beitt þegar íbúðirnar voru hirtar af því.

„það voru engin grið gefin, það var ekki boðið upp á almennilega frystingu lána eða vaxtalækkun, það var einfaldlega ekkert gert af hálfu Íbúðalánasjóðs til þess að hjálpa fólki að standa þetta af sér“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila