Kvikumagn undir Svartsengi nálgast sömu mörk og í aðdraganda fyrri gosa

Líkanreikningar sýna að um 5 milljónir rúmmetra af kviku hafa nú safnast fyrir undir Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Í tilkynningunni segir að sé horft er til aðdraganda fyrri eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni aukist líkur á eldgosi þegar magnið hefur náð 8 – 13 milljón rúmmetrum. Miðað við niðurstöðu líkanreikninga mun það nást í næstu viku ef kvikusöfnunin heldur áfram með sama hraða.

Fyrirvari vegna næsta eldgoss gæti orðið mjög stuttur

Talið er líklegast að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina og að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Merki um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið kæmu fram í skyndilegri, staðbundinni og ákafri smáskjálftavirkni. Ef horft er til fyrri eldgosa á svæðinu gæti nýtt eldgos hafist með mjög litlum fyrirvara, innan við 30 mínútur, allt eftir því hvar á Sundhnúksgígaröðinni kvika kemur upp.

Veðurstofan tekur fram að gera þurfi ráð fyrir óvissu í þessari túlkun og ekki hægt að fullyrða að þróunin verði eins og fyrir síðustu gos. Einnig er sá möguleiki fyrir hendi að kvika hlaupi frá Svartsengi og yfir í Sundhnúksgígaröðina án þess að til eldgoss komi.

Grafið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúksgígaröðina. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Staða kvikusöfnunar 21. febrúar er merkt með rauðu. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila