Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram

Kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram og fjöldi skjálfta á dag sem mælast á Sundhnúksgígaröðinni og nágrenni heldur áfram að aukast. Fyrir tveimur dögum mældust um 60 skjálftar á sólarhring. Til samanburðar var fjöldi skjálfta fyrir rúmri viku um 30 skjálftar að meðaltali á dag.

Þróun landriss og kvikusöfnunar undir Svartsengi er svipuð og síðustu daga. Áfram hægir örlítið á landrisinu og sú þróun samfara aukinni jarðskjálftavirkni eru vísbendingar um að þrýstingur í kerfinu sé að aukast. Segir Veðurstofan að nú sé þetta spurning um hversu mikinn þrýsting jarðskorpan þolir áður en hún gefur undan og nýtt kvikuhlaup fer af stað.

Samkvæmt líkanreikningum er áætlað magn í kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi orðið svipað og fyrir gosið sem hófst í lok maí. Upphaflegir líkanreikningar gerðu ráð fyrir að í lok þessarar viku yrði efri mörkum þess sem talið er þurfa til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi náð. Hægst hefur á landrisinu og því þarf að reikna með að lengst geti í þeim tímaglugga ef ekki dregur til tíðinda á næstu dögum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila