Kvörtun lögð fram til Umboðsmanns Alþingis vegna velsældarsendiherrastöðu Katrínar Jakobsdóttur hjá WHO

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Hans Kluge, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar

Umboðsmanni Alþingis hefur borist kvörtun vegna starfa Katrínar Jakobsdóttur í þágu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem velsældarsendiherra.

Í kvörtunarbréfinu sem Útvarp Saga hefur undir höndum leggur einstaklingur fram kvörtun hjá embættinu vegna starfa Katrínar fyrir WHO sem velsældarsendiherra . Í kvörtuninni kemur fram að það geti varla samræmst störfum forsætisráðherra að vera á sama tíma tengd yfirþjóðréttarlegri stofnun og hvað þá vera sendiherra slíkrar stofnunar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók við embætti sendiherra velsældarverkefnis Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. Champion for the WHO Well-being Economy Initiative) til næstu tveggja ára í júní í sumar.

Hlutverk Katrínar sem velsældarsendiherra er að vekja athygli á velsældaráherslum á alþjóðavísu og kynna fyrir ríkjum heims og alþjóðastofnunum velsældarhagkerfi.

Forsætisráðherra ræddi hlutverk sendiherra verkefnisins meðal annars á fundi með Hans Kluge, framkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu, á velsældarþinginu sem haldið var á vegum forsætisráðuneytisins í Hörpu í júní.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila