Land heldur áfram að rísa í Svartsengi

Áfram mælist landris við Svartsengi og hefur hraðinn haldist óbreyttur síðustu vikur. Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að vísbendingar væru um að hægt hefði á því dagana á undan. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Í tilkynningunni segir að mælingar síðan þá sýni að hraðinn hefur haldist jafn ef horft er til síðustu vikna. Þrýstingur haldi því áfram að byggjast upp í kvikuhólfinu og líkur séu á nýju kvikuhlaupi úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina.

Þá segir að skjálftavirkni hafi aukist á Sundhnúksgígaröðinni síðustu daga. Um sé að ræða smáskjálfta sem séu líklega merki um spennulosun í og við kvikuganginn á Sundhnúksgígaröðinni vegna aukins kvikuþrýstings í kvikuhólfinu undir Svartsengi.

Hraunflæði úr gígnum er umtalsvert minna en það var fyrir þremur vikum. Hraunflæðið eins og það er í dag er metið verulega lítið en þó þarf að reikna með því að gosið haldi áfram í einhvern tíma þrátt fyrir þetta litla hraunflæði.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila