Landris heldur áfram á stöðugum hraða

Eldgosið við Sundhnúksgígaröðina er stöðugt og gýs úr einum gíg skammt austan við Sundhnúk. Hraunbreiðan heldur áfram að byggjast upp nærri gígunum en hraun rennur einnig í lokuðum rásum um 1 km í suðaustur og eru virk svæði í hraunbreiðunni til móts við Hagafell.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Í tilkynningunni segir að mánudaginn 15. apríl hafi myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands farið í flug yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður mælingaflugsins sýna að flatarmál hraunbreiðunnar þann 15. apríl var 6,15 km2 og rúmmál 33,2 ± 0,8 milljón m3. Útbreiðsla og þykkt hraunbreiðunnar er sýnd á korti hér að neðan.

Kort sem sýnir útbreiðslu og þykkt þess hrauns myndast hefur í eldgosinu sem nú stendur yfir. Fjólubláar þekjur sýna hraun sem hafa runnið á svæðinu frá desember 2023.

Áfram er hætta á gasmengun frá eldgosinu sem getur valdið mengun í byggð á Reykjanesskaganum og bendum við fólki á svæðinu að fylgjast með á loftgæði og kynna sér þar viðbrögð við loftmengun frá eldgosinu.

Spá veðurvaktar um gasdreifingu í dag (fimmtudag) er norðvestlæg átt 3-8 m/s og gasmengun frá eldgosinu berst að mestu til suðausturs. Á morgun (föstudag) gengur í suðaustan 8-13 með rigningu en suðlægari annað kvöld. Gasmengun mun fara til norðvesturs og síðar til norðurs. Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila