Laun í ferðaþjónustu lægst í veitingageiranum en hæst í fluggeiranum

fluggeirinnÍ nýrri skýrslu um launagreiningu í ferðaþjónustu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, er gefin mynd af þróun og samsetningu launa innan ferðaþjónustunnar og þau borin saman við almenna launaþróun. Skýrslan byggir á tölfræðilegum launaupplýsingum og viðtölum við aðila ferðaþjónustunnar vítt og breitt um landið og eru í henni lagðar fram ábendingar og leiðir til úrbóta.
Í skýrslunni kemur fram að árið 2015 hafi starfað rúmlega 19 þúsund manns við ferðaþjónustu og að þeim hafi fjölgað undanfarin misseri samfara miklum vexti greinarinnar. Starfsmönnum í ferðaþjónustu hafi þó ekki fjölgað jafn hratt og ferðamönnum, en frá 2010 til 2015 hafi fjölgun ferðamanna verið um 175% á meðan störfum við ferðaþjónustu hafi fjölgað um 65%.
Í skýrslunni er rýnt í launatölur starfsmanna við ferðaþjónustu á árinu 2014 úr gögnum sem Stéttarfélagið Efling og Ríkisskattstjóri lögðu til. Eru þær upplýsingar greindar eftir atvinnugrein, landsvæði og kyni. Meðal helstu niðurstaðna er að laun í ferðaþjónustu hafa ekki hækkað til jafns við laun almennt.
Í skýrslunni kemur fram að á meðan laun hækkuðu að meðaltali um 28% frá 2010 til 2014 hafi laun í ferðaþjónustu einungis hækkað um 24%. Laun séu hæst í flugsamgöngum en lægst í veitingaiðnaði. Þá séu launin hæst á Austurlandi og í Reykjavík en lægst á Vestfjörðum, eða um 34% lægri en á fyrrgreindum svæðum. Þá kemur fram að laun þeirra sem starfa allt árið séu umtalsvert hærri en laun þeirra sem starfa hluta úr ári, en að það skýrist m.a. af starfsaldri.
Í skýrslu Háskólans á Bifröst kemur auk þess fram að óútskýrður launamunur kynjanna sé umtalsverður og að karlar séu með um 20% hærri laun en konur innan ferðaþjónustunnar, m.v. launaupplýsingar frá árinu 2014. Mesti munurinn sé í flokki ferðaskrifstofa og skipuleggjenda, þar sem karlar séu með um 50% hærri laun en konur. Minnsti munurinn sé í flokki hótela og gistiheimila. Þar séu konur með um 0,5% hærri laun en karlar, en þær séu um 70% starfsmanna í þeim flokki.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila