Leggja til breytingar vegna hergagnaflutninga

Forsætisráðherra hyggst leggja til við forseta Íslands að stjórnskipuleg ábyrgð á leyfisveitingum íslenskra stjórnvalda vegna hergagnaflutninga með borgaralegum loftförum. Ráðherra leggur til að málaflokkurinn verði færður frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins. Þessi áform Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem og áform utanríkisráðuneytisins um endurskoðun reglna og breytt verklag við veitingu leyfa til hergagnaflutninga voru kynnt ríkisstjórn á fundi hennar fyrir helgi.
Fram kemur í tilkynningu að Samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, í samráði við forsætisráðuneytið, hafi á undanförnum mánuðum unnið að því að endurskoða verkferla við veitingu leyfa vegna hergagnaflutninga.
Þá segir að ástæðan fyrir þessum breytingum á verkaskiptingu er sú að það mat sem fram fer við leyfisveitingar ssamkvæmt loftferðalögum snúi ekki að flugöryggi heldur fyrst og fremst að alþjóðlegum skuldbindingum og stefnu Íslands í alþjóðlegum öryggis- og varnarmálum, sem og mannúðar- og mannréttindamálum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila