Lestrar og stærðfræðikennsla byrjar of snemma – Ættum að taka Finnland til fyrirmyndar

Ein af megin ástæðum lestrarvanda barna er að börnin eru látin hafa of þung verkefni miðað við aldur og þroska og því geta skapast ákveðin vandamál sem leiða til þess að það kemur niður á lestrarkunnáttu þeirra. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Hermundar Sigmundssonar prófessors í lífeðlislegri sálarfræði við Háskólann í Þrándheimi í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Hermundur segir að það sem vitað er nú að orðaforða og málþroska barna á leikskólaaldri hafi farið mikið aftur hér á landi og að vísbendingar séu um í nokkrum bæjarfélögum um að það séu að nálgast 40% barna sem séu í þeim áhættuhópi. Það sé grafalvarleg staða því orðaforðinn og málþróun sé lykillinn að lesskilningi, framsögn og að því að geta skrifað texta. Hann segir að þegar staðan hafi verið könnuð árið 1998 hafi hlutfallið verið 16% þannig um klárlega aukningu er að ræða og segir Hermundur þetta kalla á að könnun verði gerð á landsvísu.

„við sjáum það í Reykjavík þar sem krökkum var fylgt eftir með sama prófinu á árunum 2002 til 2019 þá voru árið 2002 33% barna sem ekki voru að ná að lesa sér til gagns eftir annan bekk en 2019 voru það 39% bæði drengir og stúlkur,þannig þar er líka aukning en við vitum ekkert um stöðuna á landsbyggðinni“segir Hermundur.

Vandinn mjög alvarlegur

Þá segir Hermundur að vitað sé að 92,5% grunnskólabarna sem eru innflytjendur séu á rauðu og gulu ljósi hvað lestrarkunnáttu varðar sem skýrist af því að þau kunna ekki íslensku. Þegar svo kemur að PISA niðurstöðunum þar sem kannað er hjá 15 ára nemendum þá sjáist að þróunin hafi verið mjög slæm í lesskilningi þar sem 34% drengja og 19% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns og þar eru líka 21% sem eiga í erfiðleikum með stærðfræði. Þá sýni UNESCO skýrslan frá árinu 2020 að 30% 15 ára unglinga eigi í erfiðleikum með félagsfærni, þar séu Íslensk börn miðað við önnur lönd í Evrópu.

„þetta er náttúrulega grafalvarlegt, bæði lesskilningur og orðaforði sem er grundvöllur alls til þess að geta lesið,tjáð sig og náð í upplýsingar og þetta með félagsfærnina sem er lykilinn að því að geta þrifist með öðru fólki og skapað tengsl við aðra“segir Hermundur.

Kerfið er stóri vandinn

Hann segir þessar alvarlegu staðreyndir kalla á að skoða þurfi kerfið, hvort kerfið sé að aðlaga sig nóg að þörfum barna og hvort börn séu að ná að aðlagast kerfinu nægilega vel.

Aðspurður um hvers vegna hann telji svo mörg grunnskólabörn sem raunin sé að séu að bíða eftir greiningum og hvað valdi því.

„það eru alltaf fleiri og fleiri unglingar sem segjast ekki líða vel og ég tel náttúrulega að þarna sé um samfélagslegt vandamál um að ræða, kannski sé um að kenna að of mikil pressa sé sett á börnin of snemma, í leikskólum sé strax farið á fullt í að kenna stærðfræði og lestur og mörg barnanna séu einfaldlega engan vegin tilbúin til þess“

Hermundur bendir á að í Finnlandi byrji börn í grunnskóla sjö ára og ástæðan sé sú að finnar horfi til rannsókna sem gerðar hafi verið sem sýni að á þeim aldri séu flestir tilbúnir til þess að hefja nám og hafa til þess nægan þroska og þá byrji finnar alls ekki að kenna lestur eða stærðfræði fyrr en börnin séu komin í grunnskóla.

Hann segir að sé horft til Íslands þá sé ljóst að hér sé keyrt á fullt og börnin látin í aðstæður sem þau ekki ráði við miðað við getu þeirra og þroska.

„ég segi eins og finnarnir, leyfum börnum að vera börn og eflum hreyfifærni, hreysti vinnum með mál og orðaforða og félagsfærni“segir Hermundur.

Hvað varðar sértækan námsvanda drengja segir Hermundur að staða drengja hafi verið könnuð nokkuð í Noregi. Þar komi ýmislegt forvitnilegt í ljós. Til dæmis séu drengir viðkvæmari fyrir því þegar foreldrar skilja því það komi niður á menntun þeirra að alast ekki upp hjá báðum foreldrum. þá þurfi drengir meiri útrás fyrir þá miklu orku sem þeir búa yfir. Börn séu fyrst á leikskóla þar sem áhersla á hreyfingu og virkni er mikil en svo komi að því að drengir fari í grunnskóla þar sem ætlast sé til þess að þeir sitji kyrrir oft í mjög langan tíma í einu. Hann segir heppilegt að hafa setutímann að hámarki 40 mínútur og hafa 15 mínútna hlé á milli svo drengir fái útrás fyrir orkuna.

Einnig hafi efnaskipti líkamans áhrif, til dæmis sé mismunur á virkni ánægjuhormónsins dópamíns eftir því hvort um sé að ræða stúlkur eða drengi.

„drengir fá meiri virkni dópamíns þegar er mjög klár og afmarkaður fókus á þau verkefni sem þeir eru að leysa en stúlkur fá meiri virni þess þegar kemur að hinu félagslega hópeðli“segir Hermundur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila