Leyndarhjúpur yfir sölu íbúða frá Íbúðalánasjóði – Eignatengsl í Karabíska hafinu og leigufélaga

Það er ekki auðvelt að fá upplýsingar um hverjir fengu að kaupa þær 4300 íbúðir sem Íbúðalánasjóður leysti til sín með nauðungarsölum, á árunum 2011 og 2012 og þær upplýsingsingar sem hafa þó fengist með mikilli rannsóknarvinnu gefa ekki mjög fagra mynd af því hvernig staðið var að söluferlinu og þeim sem fengu að kaupa. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þorsteins Sæmundssonar fyrrum þingmanns Framsóknarflokksins á árunum  2013- 2016 og þingmanns Miðflokksins frá 2017 í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur. Þorsteinn hefur ítrekað reynt að fá svör félagsmálaráðherra um hverjir hafi eignast íbúðirnar en ekki fengið fullnægjandi svör og hefur hann því farið krókaleiðir til þess að leita upplýsinga og orðið nokkuð ágegnt í þeim efnum.

Hann segir forsöguna vera þá að Íbúðalánasjóður hafi byrjað að hirða af fólki eignirnar árið 2009 og fyrirspurnir hans hafi náð frá árinu 2009 til 2019 og spanni þannig tíu ára tímabil.

„ég spurði að þessu margoft og félagsmálaráðherra bar fyrir sig persónuverndarákvæðum svo ég hafði sjálfur samband við Persónuvernd um hvort þetta væri rétt en þeir tóku enga afstöðu í málinu um hvort þetta væri undir þeim eða ekki.  Alþingi fann svo út að félags og barnamálaráðherra væri að brjóta lög um ráðherraábyrgð og þingsköp með því að svara ekki fyrirspurnum mínum að þá loksins gaf hann eftir og lét af hendi þessar upplýsingar sem ég hef svo verið að vinna úr og þetta er mikið efni“

Hann segir það merkilegt að enginn rannsóknarblaðamaður hafi kafað ofan í málið þrátt fyrir að Þorsteinn hafi komið ábendingum og gögnum til dæmis  til Kveiks en enginn viðbrögð fengið.

„ég hélt að Ríkisútvarpið hefði nú áhuga á því hvað varð um 10.000 manns sem hafi verið hent út á götu en svo var ekki“

Hann segir málið vera tvíþætt. Í fyrsta lagi að það skyldi gerast að ríkisfyrirtæki skyldi ganga svo hart fram gagnvart almennum borgurum og ekki sýnt neinn samningsvilja gagnvart því nema þó að sumir fengu að búa í íbúðunum en svo bara breyttist nafnið á leigusalanum, það var fyrst Íbúðalánasjóður og svo Klettur og síðasr eitt af þessum fyrirtækjum sem fengu að kaupa þessar íbúðir.

Hinn hluti málsins sé hverjir hafi fengið að kaupa íbúðirnar og hvernig staðið hafi verið að sölunni. Í svari Íbúðalánasjóðs við fyrirspurnum Þorsteins segir að sumar íbúðirnar hafi verið seldar ýmist í grúppum eða ein og ein, fasteignasalar sem hafi verið valdir eftir útboði hafi séð um sölurnar.

Hann segist hafa komist yfir upplýsingar um eina „pakkasölu“  af þessum 4300 eignum, sem hafi verið sala á 140 íbúðum á höfuðborgarsvæðinu árið 2016 sem voru seldar á samtals 1,7 milljarða króna eða um 16 milljónir að meðaltali á íbúð á höfuðborgarsvæðinu á fínum stöðum, þar á meðal í hverfum 101, 107, Breiðholti, Grafarvogi, Kópavogi og Hafnarfirði. 

„En þetta var sem sé svona þessar íbúðir fékk þetta fyrirtæki að kaupa á 1,7 milljarða króna en borgaði ekki krónu út.“

Aðspurður um hvernig samningar hefðu verið þar á ferðinni segir Þorsteinn:

„það var banki sem tók að sér að fjármagna kaupin gegn veði í öllum íbúðunum og það er nú eitt lengsta tryggingarbréf sem ég hef lesið“ segir Þorsteinn.

Í sumum tilfellum hafi það verið Íbúðalánasjóður sem lánaði fyrir kaupunum á vöxtum sem ætlaðir voru óhagnaðardrifnum leigufélögum.

„þau skiluðu peningum til baka og eru enn að af þeirri einföldu ástæðu að auðvitað eru þetta hagnaðardrifin leigufélög“

Hvað varðar þær 140 íbúðir sem seldar voru á 16 milljónir án útborgunar ákvað Þorsteinn að kanna það mál nánar og hverjir það hefðu verið sem fengu að kaupa. Komu þá upp tvö nöfn sem voru mest áberandi, það eru Heimavellir sem  voru með rómverskum stöfum frá einum og upp í tólf, sem sé tólf fyrirtæki sem eignuðust mikið safn íbúða.

Leigufélögin breyta um nöfn 


Heimavellir eru búnir að vera að breyta um nöfn allan þennan tíma og eiga það einmitt sammerkt með hinu félaginu sem hét BK eignir og breyttist svo í Alma BK og svo í Alma leigufélag sem var svo selt í fyrra“Þannig skipti þessi félög um nöfn hægri vinstri þegar þeir selja íbúðir.

„svo í hvert sinn sem það verður sala þá hækkar íbúðin í hvert skipti svo menn innleysa hagnað í hvert skipti og ef við skoðum þetta með þessar 140 íbúðir þá var þar verið að kaupa þessar íbúðir af 40-50% af verðmæti þeirra og ef þú færð að kaupa þetta svona og slærð svo út á þetta hærra mat heldur en þú keyptir þetta á, þá ertu að innleysa strax um 300 milljónir eða hver sem upphæðin er og getur svo haldið áfram annað hvort að leiga eða selja og fá þannig þessar íbúðir borgaðar til baka á örskömmum tíma“

Síðan gerist það að í fyrra þá voru Heimavellir seldir úr landi til Noregs með 1335 íbúðum og sameinað fyrirtækinu Heimstaden og þar með er stærsta leigufélag á Íslandi komið í hendur Norðmanna og nú eru Heimstaden og Alma leigufélag ráðandi á markaðnum hér á landi og fákeppnin eftir því.   Hann bendir á að um sé að ræða nokkurs konar keðju félaga sem skipti um  nöfn og kennitölur til að fela slóð sína.

„öll þessi keðja þar sem sífellt er verið að breyta nöfnum fyrirtækjanna, selja íbúðir innan þeirra og ég held að þetta sé gert markvisst í þeim tilgangi að fela hvernig sé í pottinn búið og hvernig þetta varð allt saman til“ segir Þorsteinn.

Arnþrúður sagði forsögu Heimavalla þá að Leigufélagið Stefnir hafi keypt 31 íbúð af Íbúðalánasjóði  á árunum 2016 – 2017 og heildarkaupverðið þá hafi verið 450,5 milljónir, síðan hafi Heimavellir eignast íbúðirnar sem voru svo seldar á næstu árum með að minnsta kosti 266 milljón króna hagnaði.Þorsteinn segir að fólki sem þekki til í byggingabransanum blöskri vinnubrögðin við íbúðasöluna og segist hafa hitt vandaðan mann úr byggingarbransanum sem hafi sagt honum það að hann hefði tekið að sér tímabundið starf ásamt tveimur lukkuriddurum sem átt hafi varla neitt og þeir hafi farið og ætlað að kaupa íbúðir af Íbúðalánasjóði.

„þeim var boðið þarna inn á skrifstofu og þar voru svo opnaðir heilu dálkarnir og þeir spurðir hvort þeir vildu þessa eða hina blokkina eða jafnvel báðar, og vinnubrögðin voru þannig að þessi ágæti maður sagði sig frá verkinu til þess að skaða ekki mannorð sitt og sendi þáverandi forstjóra Íbúðalánasjóðs bréf þar sem hann ráðlagði honum að senda tiltekin atriði í þessu máli til efnahagsbrotadeildar lögreglu, það gerði forstjórinn ekki en það gerði þessi ágæti maður en efnahagsbrotadeildin felldi málið niður og ég tel líklegt að það hafi þeir gert af því þeim hefur fundist málið of viðamikið.

 Huldumenn fengu 2300 íbúðir frá Íbúðalánasjóði

Hann segir að menn sem standi að þeim fyrirtækjum sem fengið hafi að kaupa íbúðir af Íbúðalánasjóði sé athyglisverður hópur manna sem hafi verið í kringum þá menn sem voru að gera sig gildandi í viðskiptalífinu á Íslandi fyrir bankahrun og þá sem Þorsteinn segir að telja megi sem handritshöfunda hrunsins.  Til dæmis megi nefna að þeir sem stóðu að BK eignum sem síðar varð að Ölmu sé skrítnasti eigendahópur sem Þorsteinn hafi séð.

„í fyrsta lagi voru 20% af félaginu í eigu félags í Karabíska hafinu sem hét Capuccino partners og ég reyndi að grafast fyrir um hverjir væru að baki því félagi en það gekk ekki en ég sendi upplýsingarnar hins vegar til Héraðssaksóknara og þau höfðu áhuga á málinu svo ég sendi þeim allar upplýsingar og þau lofuðu því að ég fengi ekkert að vita hvað myndi gerast í framhaldinu en það er fínt ef þeir geta grafið eitthvað upp, í BK partners voru líka tveir samverkamenn Bjögólfs Thors Björgólfssonar í einu félgi og það félag átti sama heimilisfang á þeim tíma og Novator, þá var einn þeirra sem var á bak við BK eignir fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í London, fólk sem bjó í Lúxemburg, tveir bræður annar sem bjó í Noregi og hinn á Íslandi og sá var barnaskólakennari hérna á Íslandi, eins og ég segi furðulegur hópur, og svo einn í viðbót og það var Baldur Guðlaugsson“ segir Þorsteinn.

Það sem nú er vitað um hvað varð um hluta þeirra 4300 íbúða sem Íbúðalánasjóður leysti til sín með nauðungarsölum  séu 1335 af íbúðunum í eigu Norsksa leigufélagsins Heimstaden sem félagið eignaðist með kaupum á Heimavöllum, þá sé Leigufélagið Alma, áður BK-Eignir með um 600-700 íbúðir í sinni eigu.  Ljóst að enn vantar upplýsingar um hvað varð um 2300 af heildaríbúðafjöldanum sem seldur var frá Íbúðalánasjóði en um þær segir Þorsteinn:

„þær hafa sjálfsagt farið til minni fyrirtækja og einstaklinga, einhverra sem hafa farið vel út úr þessu“ segir Þorsteinn. 

Enn er er því óljóst hvaða huldumenn fengu að kaupa þessar 2300 íbúðir sem seldar voru nauðungarsölu. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila