Líf ríkisstjórnarinnar á bláþræði

Fundur allsherjar og menntamálanefndar var skyndilega felldur niður í morgun þar sem taka átti fyrir útlendingafrumvarpið. Það að fundurinn hafi verið felldur niður bendir til þess að Vinstri grænir hafi ekki viljað hleypa málinu til umræðu fyrr en búið væri að semja um einhvern heildarpakka. Þetta segir Berþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar ásamt Eyjólfi Ármannssyni þingmanni Flokks fólksins.

Bergþór segir að ef sú staða teiknast upp að útlendingafrumvarpið dagi uppi þá sé ríkisstjórnin búin að vera enda sé það pólitískur ómöguleiki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að kyngja því að málið klárist ekki. Bergþór bendir á að bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins styðji frumvarpið þó tillaga Miðflokksins um að herða á því hafi verið felld í annari umræðu.

Eyjólfur sammála að VG sé að stöðva málið

Eyjólfur tekur undir orð Bergþórs og segir að um klukkutíma áður en fundurinn átti að hefjast hafi hann fengið sms um að það væri búið að aflýsa fundinum og engar skýringar hafi fylgt um hvers vegna honum væri aflýst. Hann segir að formaður nefndarinnar verði að útskýra hvers vegna fundinum hafi verið aflýst. Ef sú tilgáta sé rétt um að VG sé að stöðva málið segir Eyjólfur það ljóst að eitt mikilvægasta frumvarp ríkisstjórnarinnar á þessu vori nái ekki fram að ganga.

Miðflokkur og Flokkur Fólksins styðja frumvarpið

Eyjólfur bendir á að þingmeirihluti sé fyrir frumvarpinu og þó bæði Miðflokkurinn og Flokkur fólksins hafi lagt fram breytingartillögur um að herða á frumvarpinu muni flokkarnir þó styðja það óbreytt.

Allt gert til að halda lífi í ríkisstjórninni

Bergþór segir að könnun um fylgi stjórnarflokkanna sem á að birtast í kvöld gæti einnig haft áhrif á málið og segir að ef þar komi fram að fylgi VG haldi áfram að dala þá sé líklega að koma að þeim tímapunkti að flokkurinn vilji spyrna við fótum. Þá liggur fyrir að stjórnarflokkarnir séu ekki enn farnir að ræða um drög að þinglokum við stjórnarandstöðuna og enn séu mörg stór og flókin mál sem eigi eftir að ná í gegnum þingið. Berþór segir að þó sé líklegt að allt verði reynt til þess að halda lífi í ríkisstjórninni fram á næsta ár.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila