Lilja Alfreðs: Eigum ekki að binda okkur í samkrull þjóða eins og Evrópusambandið

Þjóðinni hefur alltaf vegnað vel og betur þegar hún hefur ráðið sínum málum sjálf og þess vegna eigum við að standa vörð um fullveldið og ekki binda okkur inn í samkrull þjóða eins og Evrópusambandið. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningar-ferðamála og við­skipta­ráðherra en hún var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Lilja segir að ef Ísland færi inn í Evrópusambandið væri verið að færa ákvörðunartöku fjær fólkinu í landinu og einmitt þess vegna hefur Lilja ekki verið hrifin af þeim hugmyndum þeirra flokka sem vilji fara í þá vegferð. Hins vegar sé mjög mikilvægt að Ísland hafi mjög gott aðgengi að mörkuðum og Ísland geti til dæmis ekki hunsað þá atburði sem eru að gerast í Rússlandi. Hún segir að það sé hennar mat að það sé alger grunnstoð lýðræðislegs samfélags að fólk fái tækifæri til að tjá sig í orði og athöfnum. Öll þau ríki sem grundvallast ekki á þessum grunni og hafa ríka lýðræðishefð lenda iðulega í miklum erfiðleikum og vísar Lilja til Rússlands í því samhengi.

Frjálsir fjölmiðlar bannaðir í Úkraínu

Arnþrúður benti á að í Úkraínu sé ástandið heldur ekki björgulegt í þessum efnum, þar sé stjórnarandstaðan engin, kosningar fari ekki fram þar og frjálsir fjölmiðlar bannaðir. Samt sem áður sé Ísland að samsama sig við Úkraínu á meðan rétt væri að Ísland gæti sín í þessum efnum. Hér á landi sé fólk til að mynda útskúfað og sé útilokað frá viðtölum í Ríkisútvarpinu þar sem það er ekki með rétta skoðun. Hér hafi Bjarni Benediktsson til dæmis sem betur fer komið veg fyrir að hér yrði sett upp Mannréttindastofnun sem átti að hafa það hlutverk að hefta tjáningarfrelsi í krafti þess að um væri að ræða hatursorðræðu.

Hlusta má á ítarlegri umræður um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila