Lilja Alfreðs: Hefur áhyggjur af stöðu ákveðins hóps eldri borgara

Það er nauðsynlegt að bæta stöðu ákveðins hóps eldri borgara í samfélaginu. Sá hópur eru konur sem hafa verið heimavinnandi og eiga ekki lífeyri og hafa jafnvel ekki aðgang að makalífeyri. Staða þess hóps sé alls ekki góð og mikilvægt að því verði breytt. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og við­skipta­ráðherra en hún var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Lilja segir mjög mikilvægt að ríkisstjórnin nýti tímann vel til þess að bæta stöðu þessa hóps. Þarna séu konur sem hafi kannski verið í hlutastarfi og með stóran barnahóp og eru í alls ekki góðri stöðu á meðan aðrir eldri borgarar séu í þeirri stöðu að eiga skuldlausar eignir og hafi það nokkuð gott.

Aðspurð um hvort ekki væri þá rétt að tekjutengja stuðning við þann hóp sem minnst hefur á milli handanna segir Lilja að hún sé algerlega hlynnt slíkri nálgun.

Það á að leyfa eldri borgurum að vinna án skerðinga

Þá séu fleiri þættir sem vinna mætti með og nefnir Lilja í því sambandi frítekjumarkið. Það sé mikill fjöldi fólks á ellilífeyrisaldri sem hafi bæði heilsu og áhuga á að vinna. Þessum hópi ætti að gera kleift að geta fengið að vinna án skerðinga því það hefur bæði góð áhrif á heilsu auk þess sem það skili einnig auknum skatttekjum í ríkiskassann. Þá myndi þetta geta orðið til þess að þekking eldri kynslóðarinnar færist yfir til hinna sem yngri eru og samfélagið myndi þannig njóta mjög góðs af.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila