Lilja Alfreðs: Vill kanna þátt vaxtagjalda í verðbólgunni

Það væri rétt að kanna hvort vaxtagjöld, vaxtabyrgði og vaxtakostnaður séu að hafa áhrif til hins verra á verðbólguna. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og við­skipta­ráðherra en hún var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Lilja segir að nú sé það svo að einkaneysla hafi minnkað mjög mikið en því miður sé húsnæðismarkaðurinn enn að hækka og því sé rétt að huga að því hvort hér sé komin svokölluð kostnaðarverðbólga og hvort það sé ástæðan fyrir verðhækkun á húsnæðismarkaði. Þetta sé eitt af viðfangsefnum hagstjórnarinnar.

Nauðsynlegt að ná verðbólgunni niður

Hún segir mjög nauðsynlegt að ná verðbólgunni niður og að sjálfsögðu sé verið að vinna í að komast að verðbólgumarkmiði Seðlabankans og kappkosta að komast þangað. Margt hafi áunnist í þeim efnum, til dæmis sé núna búið að ná góðum kjarasamningum sem ættu að slá verulega á verðbólguna þó það gerist ekki alveg strax.

Kemur til greina að selja lóðir, húsnæði og fyrirtæki í eigu ríkisins

Hún segir það ekki rétt að kjarasamningar séu ófjármagnaðir, það sé tímbundin hækkun á tekjuskatti einstaklinga en þó sé um að ræða minni háttar aukningu, hversu mikil hún sé segist Lilja þó ekki hafa upplýsingar um. Lilja segir að fjármálaáætlunin verði lögð fram á allra næstu dögum þar sem nánari upplýsingar muni liggja fyrir. Þá sé í bígerð að grípa til sparnaðar með því að sameina ýmsar stofnanir og þannig muni ýmis stoðþjónusta nýtast mun betur en nú er. Þá kemur til greina að selja lóðir og húsnæði og fyrirtæki í eigu ríksins en Lilja leggur áherslu á að ekki standi til að selja eignir sem snúi að grunnþjónustu.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila