Litið öðruvísi á ofbeldi og einelti í skólum í Lúxemborg

Hrefna Einarsdóttir mannfræðingur sem búsett hefur verið í Lúxemborg um árabil og hefur átt börn sem gengið hafa í gegnum menntakerfið í Lúxemborg ákvað að ráðast í rannsóknir á kerfisbundu ofbeldi innan menntakerfsins þar í landi og skrifaði í framhaldinu meistararitgerð um efnið. Í þættinum Unga fólkið ræddi Már Gunnarsson við Hrefnu auk Valgerðar Snæland Jónsdóttur kennara og fyrrverandi skólastjóra um þetta viðkvæma málefni.

Hrefna segir að þegar hún ákvað að ráðast í verkefnið hafi fljótt komið í ljós að erfitt var að fá að ræða við nemendur sem enn voru innan veggja menntakerfis Lúxemborgar. Ástæður þess voru að sögn Hrefnu ótti foreldra við að börn þeirra gætu orðið fyrir enn frekara ofbeldi og einelti af hálfu kennara.

Í niðurstöðum Hrefnu kemur fram að nemendur voru beittir ýmiss konar ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu af hálfu kennara og skólayfirvalda sem birtist meðal annars í höfnun og hlutgervingu. Þá kom í ljós að foreldrar sem gerðu tilraunir til þess að stöðva eineltið og ofbeldið voru einnig beittir ofbeldi af kennurum og yfirvöldum sem gerðu lítið úr eða hunsuðu kvartanir þeirra með því að þagga þær niður.

Lesa má meistararitgerðina með því að smella hér.

Í Smáraskóla var unnið gegn einelti með öllum tiltækum ráðum

Valgerður sagði í þættinum að henni þættu niðurstöðurnar úr rannsókninni sláandi. Hér á landi sé einelti frekar bundið við að börn séu beitt einelti eða ofbeldi af öðrum börnum. Valgerður sagði að þegar hún hafi verið skólastjóri í Smáraskóla hafi hún lagt mikla áherslu á að berjast gegn einelti með öllum tiltækum ráðum. Meðal annars hafi sá háttur verið hafður á að kennarar og aðrir starfsmenn skólans hafi til dæmis verið með nemendum úti í frímínútum og skipulagt með þeim ýmsa leiki og sett upp sérstök leiksvæði. Þá hafi starfsmenn einnig farið í göngutúra með börnum sem ekki voru tilbúin til þess að fara í aðra leiki.

Mikilvægt að ræða einslega við þá sem eiga þátt í einelti

Valgerður nefnir að þegar upp kom tilvik um einelti á milli drengja hafi hún boðað foreldra drengjanna á fund og segir Valgerður að það hafi hún ekki gert aftur því við þær aðstæður hafi allir foreldrarnir farið í vörn og upplifðu að verið væri að setja út á börnin þeirra. Valgerður segir að þá hafi hún séð að þetta væri ekki rétta leiðin til þess að taka á eineltismálum. Hún segir mun betra að taka á þessum málum með því að ræða við nemendurna sitt í hvoru lagi og eða sama eftir því hvernig hvert mál liggur.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila