Lítill en hávær hópur sem stjórnar umræðunni um útlendingamál

Það er lítill en hávær hópur sem stjórnar umræðunni, hér á landi, um útlendingamál og vill að talað sé aðeins um málin á einn veg. Ef einhver andstaða er sýnd þá er gjarnan hrópað að um hatursorðræðu sé að ræða. Það sé mikilvægt að taka á þessum málum af mannúð og ræða málin af virðingu fyrir mismunandi skoðunum. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sævars Þórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur í dag.

Sævar segir að til þess að hægt sé að taka á þessum málum með mannúð þurfi að vera hægt að ræða um málin án þess að það sé hrópað upp að um sé að ræða hatursorðræðu. Það sé þannig að með auknum innflutningi fólks sem lítur öðruvísi á lífið en heimamenn,hafi glæpum fjölgað þó það sé ekki eina skýringin. Þá hafi það einnig færst mjög í vöxt að gjaldþrotum hafi fjölgað verulega þar sem í hlut eiga erlendir aðilar og koma sumir þeirra við sögu í mörgum svoleiðis málum.

Taka vel utan um þann hóp sem er í algerri neyð

Hvað varðar flóttafólkið segir Sævar að það sé ljóst að taka þurfi vel utan um þann hóp sem er í algerri neyð og tryggja velferð þeirra en að sama skapi sé ekkert vit í því að hleypa inn fólki óheft inn í landið. Slíkt getur leitt til stjórnleysins og óreiðu sem endar með því að menn ráða ekkert við ástandið. Ekkert vit sé í að hafa landamæri opin öllum, það hreinlega geri enginn.

Ef menn eru ekki sammála tískubylgjunni eru þeir úthrópaðir rasistar

Hann segir alls kyns vandamál fylgja miklum innflutningi á fólki. Það að geta ekki rætt málin án þess að það leiði af sér hróp og köll um fordóma hjálpi ekki nokkrum einasta manni. Hann hafi lært það sem ungur maður að þó menn séu ekki sammála um hlutina eigi að vera hægt að ræða þá af virðingu og yfirvegun. Aldrei sé hægt að nálgast fólk sem maður telur vera með fordóma með einhverju ofstæki. Nær sé að ræða við fólk með mannúð og fara í gegnum hlutina og komast að einhverri niðurstöðu. Það sé hins vegar þannig hér á landi í dag að hér sé einhver tíska í gangi að menn þurfi að vera með einhverjar skoðanir sem séu tískuskoðanir og ef menn eru ekki fylgjandi þeim þá eru þeir úthrópaðir rasistar.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila