Lögbrot Svandísar: Líklega verið að semja á bak við tjöldin

Það er líklegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að nýta þá stöðu sem upp er komin varðandi Svandísi Svavarsdóttur til þess að semja um framgang ákveðinna mála á bak við tjöldin, til dæmis orkumálin, fyrirhugaðar breytingar á stjórn fiskveiða eða jafnvel útlendingamálin. Þetta sagði Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Stefanía segir að minnsta kosti sé ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn vilji eitthvað fyrir sinn snúð eigi hann að verja Svandísi sem ráðherra. Sumir vilji þó slíta samstarfinu við VG en Stefanía telur í því sambandi að þar sé aðeins um að ræða einstakar raddir innan þingflokksins.

Svandís og Katrín gera lítið úr alvarleika málsins

Aðspurð um hvað henni finnist um þær yfirlýsingar Svandísar matvælaráðherra og Katrínar forsætisráðherra að mál Svandísar sé ekki sambærilegt við Íslandsbankamál Bjarna Ben segir Stefanía að þetta séu allt punktar inn í þá umræðu sem á sér stað á bak við tjöldin. Svandís haldi því fram að málið sé ekkert til þess að gera veður út af og það geti alltaf átt sér stað mistök í stjórnsýslunni sem menn þá læri af og geri þá betur næst. En menn hafi þá bent á að í öðrum ráðuneytum þar sem Svandís hefur verið ráðherra hafi komið fram brotalamir og ákvarðanir gengið lengra en lög geri ráð fyrir. Gleggsta dæmið sé þegar hún var umhverfisráðherra.

Spurning hvort Svandís verði látin komast upp með þessa hegðun

Stefanía bendir á að ráðherrar beri ábyrgð á sínum ráðuneytum og sú ábyrgð sé komin frá meirihluta Alþingis enda sitji ráðherra í umboði meirihlutans. Ef ráðherra nýtur ekki stuðnings meirihlutans lengur þá verði ráðherra að taka pólitíska ábyrgð á því og yfirgefa svæðið. Auðvitað beri ráðherra að fara að lögum eins og aðrir en stundum séu grá svæði þar sem pólitíkin snýst í raun um hvað ráðherra komist upp með.

Hún segir augljóst sé horft til stjórnmálaskoðana Svandísar að hún sem umhverfissinni hafi viljað láta reyna á hvað hún kæmist upp með með því að sýna vald sitt með þeim hætti sem hún gerði.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan en þar má meðal annars heyra hvernig Stefanía muni telja að málið muni enda að lokum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila