Logi Már: Vandséð að samstarf stjórnarflokkanna geti gengið áfram

Það er vandséð að samstarf stjórnarflokkanna geti gengið áfram því nýja ríkisstjórnin er í raun sama kökuuppskriftin og áður nema nú vantar bindiefnið. Þjóðin er undir áþján vegna verðbólgu og ofurvaxta en Seðlabankinn getur ekki lækkað vexti vegna ríkisstjórnarinnar. Þetta segir Logi Már Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar sem var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag.

Logi segir að það sé ekkert launungarmál að Katrín Jakobsdóttir sem nú sé stokkin frá borði hafi leikið mjög stórt hlutverk í því að róa fólkið innan ríkisstjórnarinnar og hafi haldið því saman. Hann segir að honum að meinalausu geti ríkisstjórnin sett saman sinn meirihluta eins og þau vilja og geti gert það sem þau vilja en það eina sem hann biðji um er að ríkisstjórnin fari að snúa sér að þeim verkefnum sem fyrir liggja að þurfi að vinna.

Þjóðin undir áþján vegna verðbólgu og okurvaxta

Þjóðin búi við mikla verðbólgu og okurvexti og tugþúsundir heimila og fyrirtækja sem séu hreinlega að sligast undan þeirri áþján sem staðan í efnahagslífinu er að valda þeim. Ekki vanti að þau hafi farið í þau verkefni að kaupa upp húsnæði í Grindavík, setja 80 milljarða í kjarasamninga og sett fram nokkur hundruð milljarða samgönguáætlun en stóra málið sé að þau hafi bara ekkert sýnt á spilin hvernig þau ætli að fjármagna allt það sem þau segjast ætla að gera fyrir fólkið segir Logi.

Seðlabankinn getur ekki lækkað vexti vegna ríkisstjórnarinnar

Hann bendir á að nú sé búið að fresta fjármálaáætlun í þrígang sem hafi orðið til þess að Seðlabankinn treystir sér ekki til þess að fara hér í lífsnauðsynlegar vaxtalækkanir og það sé óboðlegt ástand.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila