Lögreglustjórinn á Suðurnesjum ítrekar að hann mæli ekki með næturdvöl í Grindavík

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér tilkynningu þar sem hann ítrekar ummæli sín um að hann mæli ekki með því að fólk dvelji næturlangt í Grindavík þó fólki sé það heimilt. Nú sé ljóst að það styttist í gos og biður lögreglustjórinn að fólk taki mið af þeirri stöðu.

Í tilkynningunni áréttar lögreglustjórinn að enn séu hættur á svæðinu í kjölfar eldgoss við Stóra Skógfell og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara.  Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.  Land rís í Svartsengi og merki eru um að það styttist í næsta gos vegna þeirrar kviku sem safnast nú saman undir Svartsengi.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settir upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík.  Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi.   Í kvöld kl. 22 verða þessar flautur reyndar en það hefur verið gert einu sinni áður. Tekið skal fram að til stendur að prófa flauturnar í eina mínútu en standi hljóðin úr flautunum mun lengur yfir sé um raunverulegt hættuástand að ræða.

Þá áréttar lögreglustjórinn eftirfarandi:

  • Íbúar og starfsmenn fari inn í bæinn á eigin ábyrgð.   Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.  Lögreglustjóri tekur skýrt fram að Grindavík er ekki staður fyrir barnafólk eða börn að leik.   Þar eru ekki starfræktir skólar og innviðir eru í ólestri.  Lögreglustjóri mælir ekki með því að fólk dvelji í bænum.
  • Jarðsprungur eru víða í og við bæinn og sprungur geta opnast án fyrirfara.   Hætta er metin töluverð á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.  Mótvægisaðgerðir eru og hafa verið í gangi sem felast m.a. í kortlagningu, jarðkönnun, jarðsjármælingum og sjónskoðun.  Þá hafa sprungur verið girtar af.
  • Opin svæði í og við Grindavík hafa ekki verið skoðuð sérstaklega.  Fólk haldi sig við götur bæjarins og forðist að fara út á lóðir og önnur opin svæði.
  • Grindavík er lokuð öllum öðrum en viðbragðsaðilum, íbúum bæjarins, starfsmönnum fyrirtækja bæjarins og þeim sem þurfa að aðstoða íbúa.  Fjölmiðlafólk hefur heimild til að fara inn í bæinn með sama hætti og íbúar og starfsmenn fyrirtækja.   
  • Á starfssvæði Bláa Lónsins og HS orku er hætta á hraunflæði.   Um tíma þrengdi að aðkomuleiðum þegar hraun rann yfir Grindavíkurveg og lokaði leiðinni inn að Bláa Lóninu, Northern Light Inn og HS orku.  Lagður var vegur yfir ný runnið hraunið og aðkoma um Grindavíkurveg opnuð að nýju.
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila