Lyfjastofnun hyggst kanna möguleika þess að gera lyfið naloxon í formi nefúða aðgengilegt í lausasölu á Íslandi að sænskri fyrirmynd. Naloxon nefúði er mótefni við of stórum skammti ópíóíðlyfja og er lyfið notað sem neyðarmeðferð. Víða erlendis eru til dæmi um að dregið hafi úr dauðsföllum vegna ofneyslu ópíóíða eftir að aðgengi að naloxon nefúða hefur verið aukið.
Sænska lyfjastofnunin tilkynnti á dögunum að lyfið naloxon í formi nefúða hafi verið samþykkt til lausasölu þar í landi. Það þýðir að notendur í Svíþjóð munu geta nálgast lyfið í apóteki án ávísunar frá lækni.
Undirbúningsvinna hafin hjá Lyfjastofnun
Lyfjastofnun hefur þegar hafist handa við að kanna hvort mögulegt sé að gera naloxon nefúða að lausasölulyfi á Íslandi. Þetta felur meðal annars í sér samtal við heilbrigðisráðuneytið og sænsku lyfjastofnunina, Läkemedelsverket. Hugsanlegt er að naloxon gæti orðið aðgengilegt í lausasölu á Íslandi að nokkrum skilyrðum uppfylltum. Að svo stöddu er ekki hægt að lofa nokkru um niðurstöðu þessarar athugunar, en hún byggir m.a. á vilja lyfjafyrirtækja, bæði hérlendis og erlendis, til að taka þátt í verkefninu með íslenskum stjórnvöldum.
Naloxon verður fáanlegt í lausasölu í Svíþjóð
Ákvörðuninni í Svíþjóð fylgja þau skilyrði að lyfjafræðingar í apótekum ráðleggi viðskiptavinum um rétta notkun lyfsins þegar það er afgreitt. Markaðsleyfishafi lyfsins mun bera ábyrgð á að útvega öryggis- og fræðsluefnið sem notað verður til grundvallar fræðslunni í apótekunum.
Þrátt fyrir þessa tilkynningu sænsku lyfjastofnunarinnar mun þó einhver bið verða á því að hægt verði að nálgast naloxon nefúða án ávísunar í Svíþjóð. Fyrst þurfa markaðsleyfishafi lyfsins og apótek í Svíþjóð að uppfylla þau skilyrði sem lausasala lyfsins krefst. Bæði þarf að útbúa fræðsluefnið sem fylgja á lyfinu og þjálfa starfsfólk apóteka í að veita fræðsluna.
Getur bjargað mannslífum
Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar segir lyfið geta bjargað mannslífum og vonast eftir jákvæðri niðurstöðu.
„Ópíóíðafíkn er vaxandi vandi á Íslandi og naloxon er mikilvægt lyf þar sem það getur bjargað mannslífum þegar ofskömmtun hefur átt sér stað. Við erum að skoða hvað Lyfjastofnun getur gert til þess að auka líkur á að lyfið verði fáanlegt án ávísunar læknis á Íslandi. Þó við getum engu lofað um niðurstöðuna ætlum við að leggja okkur fram um að skoða alla möguleika sem Lyfjastofnun hefur til að auka líkurnar á lausasölu. Ég ætla þó að leyfa mér að vera vongóð um farsæla niðurstöðu því það er öllum í hag að auka aðgengi að naloxon nefúðalyfinu.“