Mælt fyrir frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga

Landspítali. Ljósmynd/Þorkell

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi frumvarpi til nýrra sóttvarnalaga. Frumvarpið er endurflutt. Það var upphaflega lagt fram á 152. þingi. Síðan hafa verið gerðar á því nokkrar breytingar á grundvelli umsagna og umræðu um málið á Alþingi.

Frumvarpið er samið af starfshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði í júní 2021 með fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis landlæknis, sóttvarnaráðs, Landspítala, sóttvarnalækni og ríkislögreglustjóra.

Meðal helstu breytinga frá gildandi lögum sem lagðar eru til í frumvarpinu eru breytingar á stjórnsýslu sóttvarna. Lagt er til að sóttvarnalæknir verði skipaður af ráðherra líkt og aðrir forstöðumenn stofnana og að ábyrgð hans á framkvæmd sóttvarna heyri beint undir yfirstjórn ráðherra en ekki landlæknis eins og nú gildir. Skipað verður nýtt fjölskipað stjórnvald, þ.e. farsóttanefnd sem gerir tillögur til ráðherra um sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra sjúkdóma eins og þeir eru skilgreindir í lagafrumvarpinu. Samhliða verður sóttvarnaráð í núverandi mynd lagt niður. Enn fremur er lagt til að aðkoma og eftirlitshlutverk Alþingis að opinberum sóttvarnaráðstöfunum verði styrkt.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila