Það er ekki annað að sjá en að ritstjóri Kveiks hafi látið Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur gjalda fyrir það að hafa búið til innslag um gjafagjörning Reykjavíkur gagnvart olíufélögunum. Þetta segir Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.
Þorsteinn segir framgöngu RÚV gagnvart Maríu Sigrúnu afskaplega ófaglega og bendir á að á sínum tíma hafi fréttakona RÚV á Akureyri komið fram með frétt um asískan veitingastað á Akureyri sem hafi skaðað matsölustaðinn stórlega en þegar allt kom til alls hafi fréttin reynst röng. Í því tilviki hafi hin ranga frétt engar afleiðingar haft fyrir viðkomandi fréttamann. Það sé því sérstakt að nú sé María Sigrún látin gjalda fyrir það með tilfærslu í starfi að hafa sett fram frétt sem er rétt og sönn.
Maríu Sigrúnu refsað fyrir heiðarleg vinnubrögð
Arnþrúður sagði í þættinum að Maríu Sigrúnu hefði beinlínis verið refsað með þessum hætti og það sé mjög alvarlegt inni á fjölmiðlum þegar fréttamönnum er refsað með slíkum hætti fyrir það eitt að vilja vinna að heilindum með almannahagsmuni í huga.
Ritstjóri Kveiks þarf að gefa skýringar
Þorsteinn segir að nú þegar fólk hefur séð innslagið sé rétt að krefja ritstjóra Kveiks skýringa á því hvað honum hafi fundist að innslaginu því ekki sé að sjá annað en að það hafi verið faglega unnið og ekki sé hægt að sjá neitt athugavert við það.
Þá segir Þorsteinn að það sé vert að spyrja sig hvort málið muni ekki hafa neinar afleiðingar innan RÚV því þarna sé farið fram gegn Maríu Sigrúnu með mjög ósanngjörnum hætti.
Hlusta má á ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan