Matvælastofnun hefur enn ekki brugðist við horuðum nautgripum á Nýjabæ

Eins og sjá má á þessari mynd er ástandið á nautgripunum afar slæmt

Matvælastofnun hefur enn ekki brugðist við með afgerandi hætti við þeim nautgripum sem nú svelta utandyra á bænum Nýjabæ í Bæjarsveit og hafa nágrannar vaxandi áhyggjur af ástandinu á bænum.

Eigendur dýranna og ábyrgðaraðilar þau Kristinn Reynisson og unnusta hans Jenný Ósk Vignisdóttir og móðir hennar Þórunn Björg Bjarnadóttir hafa ekki heldur svarað fyrirspurnum Útvarps Sögu um stöðuna á bænum sem nágrannar lýsa sem hreinu helvíti fyrir dýrin.

Steinunn Árnadóttir sem hefur vel fylgst með aðbúnaði dýranna á bænum og hefur vakið athygli á stöðunni með færslum á Facebook greinir frá því í að í gærkvöld hafi dýrin verið orðin algjörlega heylaus og hafi ekki verið fóðruð að neinu leyti frá síðasta fimmtudegi. Til þess að nautgripir geti þrifist í þeim kulda sem er hér á landi á þessum árstíma er lykilatriði að þeir séu fóðraðir vel og að þeir hafi aðgang að hreinu vatni sem þeir hafi ekki að sögn þeirra sem til þekkja.

Til þess að bæta gráu ofan á svart hafa eigendur nautgripanna fengið að nýju afhent hross sem búið var að taka vörslusviptingu af þeim fyrir nokkru og hafa nú hrossin verið sameinuð við hóp hinna sveltandi nautgripa. Hrossin munu hafa verið afhent fólkinu á ný þann 18.október síðastliðinn og voru nýlega flutt að Nýjabæ. Matvælastofnun neitar að tjá sig um málið og segist stofnunin ekki geta fjallað um einstök mál. Þá hefur Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ekki brugðist við fyrirspurn Útvarps Sögu vegna málsins.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila