Megum búast við gosum á þriggja til fjögurra vikna fresti

Það eru vísbendingar um að landris sé hafið á ný. Almenningur má búast við að það muni gjósa á þriggja til fjögurra vikna fresti svo lengi sem landris heldur áfram í Svartsengi. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur og prófessor við HÍ en Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri ræddi við Þorvald í símatímanum í morgun.

Þorvaldur segir að gosið í gær sé í raun endurtekning á þeim atburðum sem orðið hafa undanfarna mánuði og enn sé ekkert sem bendi til þess að það mynstur sé að taka breytingum. Aðspurður hvort hægt sé að segja til um staðsetningu næstu gosa segir Þorvaldur að allar líkur séu á að þau verði á svipuðum slóðum og síðustu gos hafa verið.

Nú má bíða eftir að næsta gos hefjist eftir 3-4 vikur

Þorvaldur segir þetta gerast á þann hátt að kvika komi af 10 til 15 kílómetra dýpi og safnist í þetta grunna kvikuhólf sem er undir Svartsengi og þegar nægilegur þrýstingur hafi myndast, lyftist efsta lagið eins og lok og gos hefst. Svo þegar það hefur tappað af sér fer að safnast aftur inn í hólfið. Nú má því búast við að bíða þurfi í 3 til 4 vikur í að næsta gos verði því vísbendingar séu þegar um að landris sé hafið á ný.

Hvað er leirgos

Leirgosið sem talað hefur verið um að hafi komið upp í gær um tíma gerist þannig að það er leirjarðvegur í köntum gossprungunnar sem hrynur ofan í rásina og myndar þennan rykmökk sem var mjög áberandi rétt eftir klukkan hálf tvö í gær. Síðar hafi komið miklir gufubólstrar og segir Þorvaldur að það sé vegna þess að þá hafi opnast fyrir grunnvatn sem hafi runnið inn í sprunguna. Þetta virðist hafa staðið í um hálftíma en ekkert hafi gosið úr sprungunni á þeim stað síðan.

Krísuvíkurkerfið hefur áhrif á höfuðborgarsvæðið

Aðspurður um hvaða áhrif það hefði ef það tæki að gjósa í Krísuvíkurkerfinu segir Þorvaldur að það gæti haft áhrif á höfuðborgarsvæðið og þá helst vestari hluta þess. Það sé þó ekki hægt að segja að Krísuvíkurkerfið sé komið í gang ennþá en það er ljóst að það mun fara af stað og er þegar farið að undirbúa sig. Það sama gildi um Bláfjallasvæðið og Brennisteinsfjöll sem séu aðeins austar en þau svæði myndu hafa áhrif á syðri hluta Reykjavíkur þ.e byggðina við Elliðavatn og nærliggjandi svæði. Ekkert sé þó hægt að segja til um tímasetningar hvað það varðar, það gætu liðið áratugir eða lengri tími. Hann segir að líklegra sé að Reykjanesið sjálft, það er að segja svæðið nærri Reykjanesvita færi í gang áður en hin svæðin færu að taka við sér því þar hafi orðið tíðar skjálftahrinur.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila