Miðflokkurinn styður vantraust gagnvart Svandísi Svavarsdóttur

Miðflokkurinn styður áfram vantraust gagnvart Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vegna hvalveiðimálsins og líklegt er að aðrir þingmenn sem hafa sagst styðja vantrauststillögu gagnvart ráðherranum geri það einnig. Þetta segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins en hann var gestur í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur.

Bergþór segir að það sé ekkert nýtt sem fram hafi komið sem breyti afstöðu Miðflokksins í málinu og því muni þeir styðja vantrausttillöguna verði hún lögð fram eins og búist er við. Þá segir Bergþór að ef aðrir þingmenn, meðal annars stjórnarþingmenn hafi verið að meina það af einhverri alvöru á sínum tíma að þeir styddu vantraust gagnvart Svandísi þá sé ekkert sem ætti að hafa breytt þeirri afstöðu og því líklegt að þeir muni styðja vantrauststillöguna.

Vantrauststillaga og Katrín í framboð

Hann segir ríkisstjórnina vera í þeirri einkennilegu og erfiðu stöðu að á sama tíma og líklegt sé að Katrín Jakobsdóttir gefi kost á sér embætti forseta Íslands verði líklega á sama tíma kosið um vantrauststillöguna sem miklar líkur eru á að Flokkur fólksins muni leggja fram.

Stólaskipti Svandísar og Guðmundar Inga

Bjóði Katrín sig fram gætu orðið ákveðnar hrókeringar í ríkisstjórninni og segir Bergþór að mögulega gæti Svandísi verið bjargað fyrir horn til dæmis með því að hafa stólaskipti við Guðmund Inga Guðbrandsson félags og vinnumarkaðsráðherra.

Hlusta má ítarlegri umfjöllun í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila