Mikilvægt að hlusta og tala í kærleika í erfiðum málum

Fóstureyðingar og líknardráp eru ekki mikið í umræðunni hjá Þjóðkirkjunni og hafa ekki verið lengi en öll umræða um viðkvæm mál er mikilvæg og það er líka mikilvægt að hlusta á þá sem hafa reynslu vegna erfiðra mála. Hlusta þarf með kærleika og ræða við viðkomandi af virðingu. Þetta segir Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju og frambjóðandi til embættis biskups Íslands en hann var gestur í þætti Péturs Gunnlaugssonar.

Guðmundur segir að hvert líf sé guði dýrmætt og standi hjarta skaparans næst og þá gildi einu hvort um sé að ræða ófædda einstaklinga eða aldraða einstaklinga. Hann segir mikilvægt að fólk horfi þessum sömu augum hvert á annað það er að segja með augum mildinnar og veglyndis. Það sé grundvallaratriði að fordæma ekki náungann út frá skoðunum hans. Að öllum skoðunum, á ólíkum málum, sé gefið rými í samfélaginu og skoðanir séu vegnar og metnar í samfélaginu og það gerum við af virðingu hvert við annað.

Í þættinum var einnig fjallað um þátttöku kirkjunnar í umdeildum samfélagsmálum og rifjaði Pétur upp þegar birtar voru transmyndir af Jesú á strætisvögnum

Guðmundur segir að það sé vel skiljanlegt að málið hafi á sínum tíma vakið hörð viðbrögð en það sem mestu skiptir sé að fólk læri af málinu. Það sé nú svo að það sé margt sem þyki ekki góð latína í dag sem hafi verið í góðu lagi hér á árum áður og svo sé líka margt sem þyki í lagi í dag sem kannski þyki ekki í lagi í framtíðinni. Straumar og stefnur séu alltaf fljótandi og í því fiskabúri hrærist menn stöðugt í sem og Þjóðkirkjan. Það sé alltaf rétt að staldra við og velta fyrir sér hvernig eigi að miðla kærleika Jesú. Stundum hitti kirkjan í mark með það en stundum ekki.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila