Nær allir ferðamenn sem koma til Íslands koma vegna náttúru landsins

Nær allir ferðamenn sem kona hingað til lands eða 97,4% koma vegna náttúru landsins og var það því stærsti áhrifavaldurinn á þá ákvörðun þeirra að heimsækja landið. Þetta kemur fram í nýrri könnun Ferðamálastofu sem gerð var meðal ferðamanna sem komu hingað til lands í fyrra.

Könnunin var mjög viðamikil en hún er byggð á svörum 12.000 erlendra ferðamanna sem tóku þátt í henni.

Meðalaldur svarenda var 39,5 ár. Karlar voru 52,5%, konur 46,6% og annað 0,9%. Um helmingur (52,7%) var með tekjur yfir meðallagi, tæplega tveir af hverjum fimm (38,2%) með tekjur í meðallagi og tæplega einn af hverjum tíu undir meðallagi. Algengast var að tveir einstaklingar (39%) eða þrír til fimm einstaklingar (38%) væru að ferðast saman til Íslands. Um einn af hverjum tíu ferðaðist með sex eða fleirum en einn af hverjum tíu ferðaðist einsamall. Langflestir voru í fríi eða ríflega níu af hverjum tíu svarendum. Um 16,5% svarenda höfðu heimsótt Ísland áður.

Spurt var um að hve miklu eða litlu leyti einstaka þættir, tólf talsins, hefðu haft áhrif á ákvörðun ferðamanna að heimsækja Ísland. Náttúra landsins hafði mest áhrif á ákvarðanatöku en um 97% svarenda sögðu að hún hefði haft áhrif að miklu eða einhverju leyti. Áhugi ferðamanna á norðurslóðum (84,6%) náttúrutengd afþreying (79,9%) og Ísland sem öruggur áfangastaður (78,6%) voru jafnframt lykilþættir í ákvarðanatöku. Meðmæli vina og ættingja (59,2%), íslensk menning og Íslendingar almennt (55,4%) höfðu ennfremur mikil áhrif.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila