Nauðsynlegt að auka samráð við leigjendur félagslegs húsnæðis

Það er nauðsynlegt að auka og bæta samráð við þá sem leigja í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar. Þetta kom fram í máli Laufeyjar Ólafsdóttur á velferðarkaffi fundi sem haldinn var á dögunum. Á fundinum var meðal annars fjallað var um uppbyggingu félagslegs húsnæðis á líflegu velferðarkaffi í morgun. Meðal annars var farið yfir hlutverk Félagsbústaða og fjallað um hvernig úthlutun í félagslegt húsnæði fer fram. Sérstaklega var farið yfir uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Félagsbústaðir sem eru í eigu Reykjavíkurborgar leigja út 3066 íbúðir víðs vegar um borgina. Langflestar þeirra eru tveggja herbergja íbúðir. Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, sagði frá hlutverki og starfsemi Félagsbústaða, sem er að kaupa og reka félagslegt húsnæði, auk þess að sinna ýmiss konar þjónustu við leigjendur. Almennar félagslegar íbúðir eru meirihluti þeirra íbúða sem Félagsbústaðir eiga. Þær eru ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem eru ekki á annan hátt fær um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrði eða lágra launa.

Laufey Ólafsdóttir hefur leigt hjá Félagsbústöðum frá árinu 2004. Hún kom fram á velferðarkaffi og lýsti stöðu leigjenda út frá sínum sjónarhóli. Laufey hefur komið að ýmiss konar grasrótarstörfum, meðal annar fyrir leigjendur og fólk í fátækt, en hún var um tíma fulltrúi leigjenda í stjórn Félagsbústaða. Laufey talaði meðal annars um langa biðlista og hversu slæm áhrif það hefur fyrir fólk sem ekki hefur ráð á að leigja húsnæði á almennum markaði, að bíða eftir félagslegu húsnæði.

„Dóttir mín hefur prófað ansi marga grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Það er rosalegt rót að draga börn í gegnum þetta og hefur mikil áhrif, bæði á foreldra og börn,“ sagði hún meðal annars.

Hún sagði marga leigjendur Félagsbústaða eiga það sameiginlegt að hafa lítið stuðningsnet, upplifa ákveðið valdaleysi og fordóma. Nauðsynlegt sé að auka samráð við leigjendur.

Faglegt mat við úthlutun skiptir máli

Helga Sigurjónsdóttir, deildarstóri húsnæðis og búsetu á skrifstofu velferðarsviðs, fór yfir hvernig úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fer fram og sagði frá þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að komast á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Hún sagði ýmislegt hafa verið gert til að einfalda ferli við úthlutun íbúða. Meðal annars fundi úthlutunarteymi oftar, eða 1–2 í viku, og öll bréf og öll samskipti séu orðin rafræn. Endurúthlutanir gangi til að mynda mun hraðar fyrir sig í dag en áður.

Helga sagði frá því að horft sé til stöðu umsækjenda og maka, tekna, fjölda barna, félagslegra aðstæðna og félagslegs vanda, þegar umsóknum er raðað á biðlista.

„Það er ekki þannig að einfaldlega sé hægt að raða umsóknum eftir stigagjöf og úthluta eftir því. Aðstæður fólks breytast. Við sjáum líka stundum umsækjendur sem eru í brýnni þörf en aðrir, sem hafa jafnvel fleiri stig. Þarna kemur faglega matið inn og það skiptir miklu máli.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila