Nauðsynlegt að draga úr áhættu orkufyrirtækja í leyfisveitingaferli

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir að nauðsynlegt sé að draga úr áhættu orkufyrirtækja í leyfisveitingaferli og auðvelda þannig öðrum en Landsvirkjun að taka þátt í aukinni orkuöflun.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Landsvirkjunar þar sem vitnað er í viðtal Viðskiptablaðsins við Hörð en þar segir Hörður:

„Það verður að draga úr áhættu fyrirtækja í leyfisveitingaferli og auðvelda þannig öðrum en Landsvirkjun að taka þátt í aukinni orkuöflun. Það er væntanlega ekki tilviljun að önnur orkufyrirtæki sem ekki hafa jafn djúpa vasa, séu ekki með neinar framkvæmdir á teikniborðinu. Það er erfitt að réttlæta að leggja í milljarða króna kostnað við 10-15 ára undirbúning virkjunar þegar það er hægt að slá virkjanakosti í nýtingarflokki út af borðinu nær alveg fram að upphafi framkvæmda.“

Þá segir í fréttabréfinu að þó Hvammsvirkjunarmálið hafi verið kært til dómstóla muni það ekki fresta afgreiðslu virkjunarleyfis.

Svipuð staða sé uppi með Búrfellslund, en Landsvirkjun ákvað að breyta út af hefðbundnu verklagi og hefja útboð með fyrirvara um leyfismál. Ástæðan er annars vegar sú að framkvæmdaglugginn er stuttur á hálendinu og hins vegar að afhendingartími búnaðar er mjög langur. Ef þessi leið hefði ekki verið farin væri sá möguleiki úti að gangsetja vindorkuverið árið 2026 eins og nú standa vonir til. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila