Neyðaraðstoð vegna Sýrlands hækkuð um 125 milljónir

syriaAlþingi samþykkti í gærkvöldi að hækka framlög til mannúðaraðstoðar til Sýrlands á þessu ári um 50 milljónir króna. Þetta er til viðbótar 23 milljónum sem Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita aukalega til neyðaraðstoðar í landinu, meðal annars til þess að veita sálræna aðstoð fyrir flóttabörn frá Aleppo. Þá hefur ráðherra ákveðið að ráðstafa 52 milljónum þegar í byrjun næsta árs til mannúðaraðstoðar í Sýrlandi.
Í tilkynningu segir að mikil þörf sé fyrir þessa aðstoð en um hálf milljón manna hefur látið lífið og um 11 milljónir manna flúið heimili sín vegna stríðsins í Sýrlandi. Talið að um 13,5 milljónir þurfi á mannúðaraðstoð að halda. Framlög Íslands fara að stærstum hluta til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, Barnahjálpar SÞ í Sýrlandi, UNICEF, og til Sýrlandssjóðs Samræmingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA.
Þá segir að ástandið sé einna alvarlegast er ástandið í Austur-Aleppo. Í fimm mánuði mistókust tilraunir til að koma hjálpargögnum til íbúanna, sem hafa búið við skort á mat, heilbrigðisþjónustu, hreinlæti og öðrum nauðsynjum, auk þess sem mjög kalt er á svæðinu á þessum árstíma.
Sameinuðu þjóðirnar  áætluðu í vikunni að 39 þúsund borgarar hafi flúið frá Austur-Aleppó. Til að veita flóttafólkinu húsaskjól settu sýrlensk stjórnvöld upp nýjar flóttamannabúðir undir sinni stjórn í útjaðri Austur-Aleppó. Mannúðarstofnanir og borgarasamtök hafa reynt að veita aðstoð þar en aðstæður reyndust svo slæmar að flóttafólkið flúði þaðan vegna kulda og vosbúðar nokkrum sólarhringum eftir að hafa leitað skjóls. Mikill meirihluti þeirra eru konur og börn, sjúkir og aldraðir.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila