Ný ákvæði í byggingarreglugerð um lífsferilsgreiningu mannvirkja

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur undirritað breytingu á byggingarreglugerð sem felur í sér innleiðingu nýrra ákvæða um lífsferilsgreiningu mannvirkja. Með lífsferilsgreiningu mannvirkja er hægt að leggja mat á og takmarka umhverfisáhrif þeirra frá upphafi til enda. 

Breytingarnar voru kynntar á fundi á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

„Stór þáttur kolefnislosunar, hráefnisnotkunar og orkunýtingar á heimsvísu er af völdum byggingariðnaðarins. Með innleiðingu lífsferilsgreininga í mannvirkjagerð er stigið stórt og mikilvægt skref og ég er sannfærður um að þær leiði til vistvænni mannvirkjagerðar á Íslandi til lengri tíma litið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra á fundinum.

Til að tryggja farsæla innleiðingu var ákveðið að ný ákvæði í byggingarreglugerð um framkvæmd lífsferilsgreininga tækju gildi 1. september 2025. Fram að því mun HMS kappkosta að tryggja aðgengi að upplýsingum og fræðslu um gerð og skil lífsferilsgreininga, stuðla að því að hagaðilar fái reynslu við gerð og skil lífsferilsgreininga og skapa vettvang til að skiptast á þekkingu og reynslu.

Liður í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 

Breytingarnar má m.a. rekja til útgáfu Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð til ársins 2030. Hann var gefinn út árið 2022 og unninn á vegum verkefnisins Byggjum grænni framtíð, samstarfsvettvangi stjórnvalda og atvinnulífs um vistvænni mannvirkjagerð. Þar voru sett fram markmið um 43% samdrátt í kolefnislosun bygginga árið 2030 miðað við viðmiðunarár og 74 aðgerðir skilgreindar til að ná því markmiði. HMS hefur séð um að leiða vinnu í samstarfsverkefninu.

Ein aðgerðin sneri að gerð lífsferilsgreininga og innleiðingu hennar. Starfshópi sérfræðinga var falið að vinna að undirbúningi samræmdrar aðferðafræði lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar. Hópurinn leitaði m.a. ráðgjafar og umsagna frá innlendum og norrænum hagaðilum og sérfræðingum. Ný ákvæði um lífsferilsgreiningar eru því afrakstur samráðs við breiðan hóp hagaðila á undanförnum árum. 

„Með innleiðingu lífsferilsgreininga fyrir íslenskar byggingar fetum við í fótspor nágranna okkar á Norðurlöndum, sem hafa innleitt slíkar greiningar á undanförnum árum. Norðurlöndin hafa átt í samvinnu um kolefnishlutlausar byggingar, m.a. í verkefninu Nordic Sustainable Construction á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila