Ný heildarlög um ófrjósemisaðgerðir kynnt í ríkisstjórn

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í vikunni frumvarp til nýrra heildarlaga um ófrjósemisaðgerðir. Markmið þess er að tryggja sjálfsforræði fólks við ákvörðun í þessum efnum með áherslu á mannréttindi og mannhelgi einstaklinga.
Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi eldri löggjöf um ófrjósemisagerðir sem er hluti gildandi laga um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Í tilkynningu segir að ákvæði laganna hvað þetta varðar þyki að ýmsu leyti úrelt og meðal annars stríða gegn ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þá einkum ákvæðum sem skuldbinda ríki til að vinna á móti staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki, auk annara ákvæða sem meðal annars fjalla um virðingu fyrir heimili og fjölskyldu og viðurkennir rétt fatlaðra til þess að halda frjósemi sinni til jafns við aðra sem og heilsu og rétt fatlaðra til heilbrigðisþjónustu í tengslum við kyn- og frjósemisheilbrigði.

Samkvæmt frumvarpinu verða ófrjósemisaðgerðir heimilaðar í eftirfarandi tilvikum:

  • Að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri.
  • Á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir, þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins, en fyrir slíkri heimild er sett það skilyrði að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna um fyrrgreind áhrif á heilsu og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns.

Lagt til að einstaklingur hljóti fræðslu áður en ófrjósemisaðgerð er gerð um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Áfram er gerð krafa um að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila