Ný skýrsla varpar ljósi á að fatlaðir verði oftar fórnarlömb ofbeldis

Í nýútkominni skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem ber heitið Ofbeldi gegn fötluðu fólki á Íslandi kemur fram að fatlað fólk verði oftar fórnarlömb ofbeldis í samfélaginu heldur en aðrir.

Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni að rannsóknir sýni fram á að þau ofbeldismál gagnvart föluðum sem komi upp á yfirborðið rati aðeins að litlu leyti inn á borð lögreglu og enn færri fari fyrir dómstóla.

Í skýrslunni er sagt frá því að fötluð börn eru um fjórum sinnum líklegri en aðrir til þess að verða fyrir ofbeldi, sérstaklega þau börn sem eru með þroskahamlanir.

Þá er vakin athygli í skýrslunni á því að rannsóknir síðustu ára á Íslandi hafi einkum beinst að stöðu fatlaðra kvenna og reynslu þeirra af einstaklings- og stofnanabundnu ofbeldi. Fáar rannsóknir hafi beinst sérstaklega að fötluðum börnum sem þolendum ofbeldis og staða fatlaðra karla í þessu efni sé að mestu óþekkt.

Rannsóknirnar hafi leitt í ljós að algengt sé að fatlaðar konur sem verða fyrir ofbeldi tilkynni það ekki til lögreglu. Sömuleiðis sé vel þekkt að þolendur óttist að þeim verði ekki trúað.

Fyrirliggjandi kannanir bendi til þess að í meirihluta tilvika hafi gerendur ekki verið sóttir til saka, og enn síður dæmdir. Samkvæmt rannsóknum þessum virðist algengt að fatlaðar konur fái ekki viðeigandi aðstoð til að takast á við afleiðingar ofbeldisins og að aðgengi að úrræðum fyrir brotaþola sé takmarkað.

Skráning í kerfi lögreglu (LÖKE) bíður ekki uppá að þess sé getið hvort brotaþoli sér fatlaður. Til þess þarf heimild þar sem um heilsufarsupplýsingar er að ræða. Því er ekki unnt að draga saman fjölda mála er varða fatlaða einstaklinga.

Vilji er til að skoða hvernig hægt sé að tilgreina slíkar upplýsingar við skráningu mála í lögreglukerfið án þess að brjóta gegn persónuvernd. Að mati skýrsluhöfuna mætti Þannig greina betur fjölda tilkynninga um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Er það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að talsverðra breytinga sé þörf til þess að fá fram upplýsingar um umfang vandans á Íslandi.

Smelltu hér til þess að lesa skýrsluna

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila