Nýju útlendingalögin duga ekki til – Hefðum viljað ganga lengra

Nýju útlendingalögin sem samþykkt voru á Alþingi í gær ganga ekki nægilega langt til þess að ná að sporna við öllum þeim fjölda sem hingað kemur. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ingu Sæland þingmanns og formanns Flokks fólksins í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Inga segir að hún og hennar flokkur hefðu viljað ganga lengra með því meðal annars að tryggja að hópar eins og þeir sem væru að koma frá Venesúela væru ekki að fá fjögurra ára viðbótarvernd. Enda væri fjöldinn frá Venesúela orðinn meiri en sá sá sem tekið hefur verið við frá hinu stríðshrjáða ríki Úkraínu.

Hér flagga allir innviðir rauðu

Viðbótarverndin felur í sér að þeir sem hafa fá hafi nákvæmlega sömu réttindi og þeir sem hafi verið samþykktir inn sem flóttamenn og fá því sömu þjónustu og um íslenska ríkisborgara væri að ræða. Inga bendir á að gífurlegur fjöldi hafi komið til landsins bara á þessu ári í leit að vernd eða 1180 einstaklingar og hæglega hægt að búast við því að 5000 – 6000 einstaklingar komi hingað á þessu ári í leit að vernd. Það sé ljóst að mati Ingu að það gangi einfaldlega ekki upp að taka á móti slíkum fjölda ár eftir ár enda húsnæði hvergi að hafa.

„ef við gefum okkur það að hingað kæmu 6000 manns á ári næstu þrjú árin þá erum við komin þar með 18000 einstaklinga og við erum ekki burðug til þess að veita þeim þá þjónustu og umhyggju sem þau ættu að fá miðað við að þetta sé fólk í leit að betra lífi, hér eru allir innviðir gjörsamlega flaggandi rauðu. Hér er menntakerfið, gatnakerfið, heilbrigðiskerfið og allt félagskerfið allt saman á logandi rauðu ljósi og allt í molum eins og við vitum“segir Inga.

Þá bendir Inga á að þar að auki glími þjóðin við ört hækkandi vexti og þjóðin eigi erfitt með að framfleyta sjálfri sér hvað þá öðrum. Hún segist ekki vita hvað þeir sem vilji fylla hér allt af fólki þykist vera, hér þykist allir vera bestir í heimi en það geti ekki Inga séð á einn einasta máta.

„mér þætti gaman að vita hvernig félagar mínir í Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum ætli að ala önn fyrir öllu þessu fólki“

Arnþrúður benti á að veist hafi verið persónulega að Ingu úr ræðustól Alþingis í gær og hún meðal annars sögð vera pópulisti og haldinn útlendingaandúð. Inga veltir því fyrir sér hvort það myndi falla undir hatursorðræðuskilgreiningu Katrínar Jakobsdóttur.

„það var verið að veitast að mér persónulega þarna sem er auðvitað brot á áttundu grein siðareglna þingsins sem við höfum verið látin skrifa undir. Það er eitt að úthúða öllum þingflokknum úr ræðustólnum og segja að Flokkur fólksins séu pópulistar með útlendingaandúð og annað slíkt en það er orðið ívið alvarlegra þegar ráðist er að einstaklingi eins og Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar gerði gagnvart mér í ræðustóli Alþingis í gærkvöldi þegar ég lagði fram þá einföldu tillögu fram að einstaklingar fengju ekki viðbótarvernd á grundvelli efnahagsástands í viðkomandi ríki enda væru það alveg rosaleg fordæmi“segir Inga.

Hún segir að þetta sé ekki ósvipað viðmót og Ásmundur Friðrksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefði orðið fyrir og væri hreinlega lagður í einelti. Hún nefnir sem dæmi að í gær hafi mönnum á þingi brugðið þegar Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar lét þau ummæli falla um Ásmund að hann væri viðurstyggð og lygari sem vissi ekki hvort hann væri að ljúga eða segja satt.

„þetta er orðfæri sem er slíkt að maður trúir þessu varla og þetta hugnast mér illa því það er nú einu sinni þannig að kurteisi kostar ekkert“ segir Inga

Varðandi mansal sem fylgir auknum fjölda fólks hingað til lands segir Inga ljóst að það sé misjafn sauður í mörgu fé og hér séum við þegar komin með glæpahópa og glímum við vaxandi ofbeldi og fíkniefnamarkað sem taki sinn toll af fólki, fólki sem ekki fær þá aðstoð sem þarf til þess að losna úr fjötrum fíknarinnar.

Hún bendir á að kornungt fólk sé að deyja úr ofneyslu eiturlyfja og að hún skilji hreinlega ekki hvers vegna ekki sé tekið utan um þennan vaxandi hóp og honum hjálpað.

„þetta fólk öskrar á hjálp en það lendir í röð og er kannski númer 700 í röðinni, það er þetta með þessa neðanjarðarstarfsemi, svona er hún og þarna þrífst svona hryllingur“segir Inga.

Alveg hætt að botna í þeirri þróun sem er í gangi

Réttrúnaðurinn tekur á sig ýmsar myndir og Inga segir að hún hafi í því sambandi talsverðar áhyggjur af tungumálinu, því í aðra röndina segja stjórnvöld að mikilvægt sé að vernda tungumálið en í hina röndina sé verið að breyta tungumálinu á þann hátt að það hljómi undarlega.

„það má ekki halda starfsmannafundi lengur heldur starfsfólksfundi svo má ekki tala um sjómenn heldur fiskara svo eru ekki lengur allir velkomnir heldur er talað um öll velkomin, ég er algjörlega hætt að átta mig á þessu og ég næ engu sambandi við þetta og þetta er hætt að vera íslenska, það er bara verið að gjörbreyta öllu svo eru konur ekki lengur taldar menn samkvæmt þessu og ég spyr tilheyrum við konur ekki mannkyninu lengur?“segir Inga.

Hún segir forsætisráðherra og ríkisstjórnina leiða þessa afbökun.

Það sé þó ekki eina vitleysan sem sé í gangi segir Inga því loftslagsmálin séu á sama stað. Það sé þannig að gífurlegir fjármunir í málaflokkinn og ríkisstjórnin virðist halda að hún geti bjargað heiminum hvað þau varðar. Þar sé líka tvískinnungurinn allsráðandi.

„ef þú ferð í búðir þá er búið að taka plastpokana af okkur og við verðum að koma með okkur poka því annars er allt í lausu og ekki einu sinni hægt að fá litla poka fyrir appelsínur því þú þarft sjálf að koma með eitthvað undir það“

Hún bendir á að í þessu öllu fari ekki saman hljóð og mynd því í verslununum sé nánast öllu bókstaflega pakkað í plast.

„þegar ég var í Bandaríkjunum um daginn þá voru pappaglös á hótelinu en þeim var svo pakkað í plast, svo var þarna papparör sem þú áttir að nota og svo ef maður gerir það þá bráðnar það bara út í drykkinn og þarf að týna út úr sér flygsurnar sem fara af rörinu“segir Inga.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila