Nýsköpunarverkefnið „Austanátt“ ræst

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirritaði á dögunum viðaukasamning milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) við samning um Sóknaráætlun Austurlands. Markmiðið með viðaukasamningnum er að styðja við nýsköpunarverkefni tengd hringrásarhagkerfinu með viðskiptahraðlinum „Austanátt“.

Undirritunin fór fram á Vonarlandi á Egilsstöðum þegar ráðherra var þar á ferð, en samningurinn gildir fyrir árið 2023 og telur samtals 10 milljónir kr.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að Ísland verði vagga nýrra lausna á grunni auðlinda, þekkingar og staðsetningar. Styðja eigi við græna atvinnuuppbyggingu og fjárfestingar ásamt því að greiða götu verkefna, m.a. á sviði föngunar, geymslu og förgunar kolefnis, uppbyggingu hringrásarhagkerfis með fjölnýtingu orkustrauma og orkuskipta.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrasegir hringrásarhagkerfið mikilvægan þátt í loftslagsstefnunni:

„Uppbygging öflugs hringrásarhagkerfis er mikilvægur þáttur í því að stjórnvöld nái markmiðum sínum í loftslagsmálum. Samningurinn um Sóknaráætlun Austurlands er upphaf að góðu samstarfi sem við verðum og ætlum að eiga við þetta öfluga samfélag sem hér er.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila