Nýtt hættumat frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum

Sundhnúksgígaröðin milli Stóra-Skógfells og Hagafells er enn þá lang líklegasta upptakasvæði eldgoss. Hættumatskortið gildir til 12. janúar 2024.

Fréttatilkynning frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum:

Íbúum Grindavíkur er áfram heimilt að fara og dvelja heima hjá sér þar til breytingar á hættumatskorti gefa tilefnis til annars, sem gæti gerst með skömmum fyrirvara.  Þó telur lögreglustjóri varhugavert að dvelja í Grindavík við þessar aðstæður.   Þá er Bláa Lóninu og Northern Light inn heimilt að hefja starfsemi á ný í samræmi við öryggiskröfur fyrirtækjanna og í samræmi við kröfur almannavarna um öryggi.

Frá Veðurstofu ÍslandsUppfært 5. janúar kl. 17:30

Nýtt hættumat hefur verið gefið út af Veðurstofu Íslands. Kortið endurspeglar hættur á Grindavík – Svartsengi svæðinu eins og þær eru metnar þann 5. janúar 2024. Hættumatið byggir á nýjustu gögnum, þar á meðal jarðskjálfta og aflögunargögnum, auk líkanreikninga. Einnig eru metnar líkur á eldgosavá í  öllum sex svæðunum sem skilgreind eru á hættumatskortinu.

Aðalbreytingin er á Svartsengi svæðinu (svæði 1), þar sem nú er talin vera „nokkur hætta“, en það er lækkun frá síðustu útgáfu kortsins. Ástæðan fyrir þessari breytingu er að hætta vegna myndunnar á stórum sprungum á yfirborði er talinn minni þar sem engar nýjar slíkar sprungur hafa myndast að undanförnu. Auk þess sem samtúlkun vísindafólks á vöktunargögnum á samráðsfundi Veðurstofunnar, bendir til þess að Sundhnúksgígaröðin, milli Stóra-Skógfells og Hagafells, sé lang líklegasta upptakasvæði eldgoss.

Það er mikilvægt að árétta að síðasta gos hófst með mjög skömmum fyrirvara. Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið gaumgæfilega allan sólarhringinn og er í beinu sambandi við almannavarnir um stöðu mála.

Hættumatskort Veðurstofu gildir til 12. janúar 2024 að öllu óbreyttu.

Sérstaklega er ítrekað að;

Eldgos getur hafist í nágrenni Grindavíkur og fyrirtækja á svæði 1 með litlum fyrirvara.

Erfitt getur reynst að tryggja öryggi þeirra sem dvelja eða gista inni á hættusvæðum.  Þeir sem fara inn á merkt hættusvæði gera það á eigin ábyrgð.

Björgunarsveitir sinna útköllum með venjubundnum hætti.  Kallið eftir aðstoð með því að hringja í 112.

Hefjist gos verða send út sms skilaboð á gsm síma inn á svæðin með þessum texta:  RÝMING RÝMING!  Yfirgefið svæðið hratt og örugglega, hringið í 112 ef ykkur vantar aðstoð.  RÝMING RÝMING …….  EVACUATE! Leave the area quickly and safely, call 112 if you need help.

Lögregla sinnir eftirliti í og við Grindavík eins og verið hefur allan sólarhringinn.

Liðsmenn björgunarsveitarinnar í Grindavík eru dreifðir um landið og ekki til staðar í Grindavík.

Mögulegar flóttaleiðir:  Nesvegur, Suðurstrandarvegur, Grindavíkurvegur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila