Ofbeldismenn gætu hafa látið Friðfinn Frey hverfa

Það er enn mörgum spurningum ósvarað um hvarf Friðfinns Freys Kristinssonar ,sonar séra Kristins Ágústs Friðfinnssonar prests og sáttamiðlara á Biskupsstofu. Það er vitað að síðast hafi sést til hans leggjast til sunds í köldum sjónum við Geirsnef í Elliðavogi í nóvember 2022. Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtali séra Kristins við Arnþrúði Karlsdóttur þar sem þau ræddu hvarf Friðfinns sonar hans.

Það var í nóvember í fyrra sem Friðfinnur hvarf og það virðist ekkert sem bendir til þess að Friðfinnur hafi viljað taka líf sitt. Kvöldið áður höfðu þeir feðgar átt góða stund saman þegar þeir fóru saman í bíó ásamt konu Friðfinns. Það reyndist síðasta skipti sem séra Kristinn sá son sinn á lífi.

Kvöldið eftir fór Friðfinnur frá heimili sínu og þegar hann skilaði sér ekki aftur var hafin leit sem stóð yfir í talsverðan tíma. Kristinn segir að lögregla og björgunarsveitir hafi unnið mikið og gott starf við leitina. Meðal annars fannst myndefni úr eftirlitsmyndavélum víða að og klippt saman. Það myndefni varpaði ljósi á ferðir Friðfinns kvöldið örlagaríka þegar hann lagðist til sunds. Kristinn segir að meðal þess sem myndefnið sýni sé, þegar sonur hans leggst til sunds í Elliðavogi og hafi það verið ljósskíma frá skotti bifreiðar sem hafi gert það að verkum að hægt var að sjá að hann var nánast kominn að litlum tanga þegar ljósið slokknaði og ekki er hægt að sjá meira. Því sé ekki hægt að fullyrða hvort hann hafi náð til lands eða örmagnast í köldum sjónum.

Ofbeldismenn gætu hafa látið hann hverfa

Sonur Kristins hafði verið fíkill frá sextán ára aldri og var 42 ára og hafði verið edrú í dágóðan tíma þegar hann lést en hann hafði þrátt fyrir erfiðleika í lífi sínu náð meðal annars þeim árangri að hafa verið fimmfaldur Íslandsmeistari í sundi og einn af bestu flugsundsmönnum í Evrópu.

„og það sem skiptir mestu máli að hann var einstakt eintak af manni og sem betur fer var það eitt af því sem ég sagði við hann áður en hann hvarf“ segir Kristinn.

Hér má sjá svæðið þar sem síðast sást til Friðfinns á sundi.

Sem fyrr segir er fjölmörgum spurningum ósvarað um hvarf hans, til dæmis hvers vegna hann lagðist til sunds, hvort hann hafi skuldað einhverjum eitthvað og hvort hræðslan hafi tekið yfirhöndina sem hafi orðið til þess að hafa tekið þessa örlagaríku ákvörðun. Kristinn segir eina af stóru spurningunum í hans huga vera hvort hann hafi komist í land á litla tanganum eða ekki. Ef hann hefur komist í land þar sé ekki hægt að útiloka að einhverjir ofbeldismenn hafi náð til hans sem hafi látið hann hverfa, það sé einn möguleikinn í stöðunni. Búið sé hins vegar að yfirheyra þá sem þar gætu komið til greina og vilji lögreglan meina að það sé ekkert sem bendi til þess að svo hafi verið, en engum möguleikum sé lokað.

Aðspurður um hvort Kristinn viti til þess að Friðfinnur hafi skuldað einhverjum úr undirheimunum segir hann að hann búist við því, þessi heimur sé þannig að hann geri hreinlega ráð fyrir að svo hafi verið, það hafi þó ekki fengist upplýst hjá lögreglu. Erfitt sé að rekja hreyfingar á fjármunum á bankareikningum hans en það sé svo í fíkniefnaheimum að menn notast við reiðufé og erfitt sé að rekja slíkt.

Gæti hafa verið neyddur í sjóinn

Kristinn segir að þegar Friðfinnur hafi lagst til sunds hafi sést að hann hafi verið íklæddur peysu og aðspurður um hverjar séu líkurnar á að jafn reyndur sundmaður og Friðfinnur var að hann tæki ákvörðun um að leggjast klæddur til sunds að kvöldlagi í nóvember í kuldanum og hvort hann hafi hreinlega verið neyddur til þess. Kristinn segir að einn möguleikinn sé að hann hafi verið ofsahræddur við einhvern sem hafi verið að hóta honum og hann hafi ákveðið að reyna einhvern veginn að koma sér undan. Hann segist vita að daginn sem hann hvarf hafi hann verið í slæmum félagsskap, meðal annars með manni sem sé þekktur fíkniefnasali og ofbeldismaður sem svífist einskis.

„lögreglan er búin að yfirheyra þann einstakling mikið eftir því sem mér skilst þó ég trúi ekki alveg öllu sem hann segir því fólk eins og hann er mjög snjallt við að sveigja til sannleikann“

Glæpaforingjar ganga lausir

Aðspurður um hvort Friðfinnur hafi verið komin í tengsl við þá sem stundi skipulagða glæpastarfsemi segir Kristinn að líkurnar á því séu yfirgnæfandi.

„hann þekkti til mjög vondra afla og hann sagði mér margt og ég fengi einhvern tíma tækifæri til þess að leggja orð í belg gagnvart yfirvöldum þá get ég leiðbeint um margt, ég skil til dæmis ekki af hverju aðal höfðingjarnir í þessum undirheimum ganga alltaf hér um frjálsir, þetta eru bara eins og mafíuforingjar“ segir Kristinn sem einnig segist aðspurður um hverjir þeir séu að hann viti það.

Hlusta má á frásögn séra Kristins í þættinum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila