Það er tómt mál að tala um að skipta alfarið yfir á rafmagn sem nýjan orkugjafa og því er samkomulag Evrópusambandsins og stjórnvalda í Þýskaland um bann við sölu á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti tómt bull. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kristins Sigurjónssonar rafmagns og efnaverkfræðings í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.
Kristinn segir að ástæður þess að það verði ógerningur að skipta alfarið yfir á raforku sé einfaldlega sú að rafhlöður hafi mun minni orku heldur en jarðefnaeldsneyti. Það er vegna þess að hún sé ekki eins þjappanleg og jarðefnaeldsneytið og því þyrfti gríðarstór batterý til þess að geta knúið til dæmis atvinnutæki eins og skip, flugvélar og flutningabíla.
Þá segir Kristinn að auk þess dugi hver hleðsla á rafgeymi afskaplega skammt þegar ökutækið sé undir áreynslu til dæmis þegar aftanívagn með hlassi er settur aftan í það. Þá fer mun meiri orka hlutfallslega í það að draga hlassið og því yrði geymirinn mjög fljótt tómur og því drægnin mjög lítil. Kristinn segir kostinn við jarðefnaeldsneytið að drægnin breytist afar lítið þó aukið álag verði á ökutækið.
Skip gætu ekki borið svo stóra rafgeyma
Hvað skipin varðar þá þyrftu rafgeymar fyrir þau að vera svo stórir að skipin sem oft eru vikum saman úti á sjó gætu hreinlega ekki borið slíka geyma og því væri eina leiðin til þess að hafa skipin rafknúin að hreinlega hafa geymana í landi og nógu langa framlengingarsnúru sem fylgdi skipinu á siglingarleiðum þess, það sjá auðvitað allir að það er ógjörningur segir Kristinn.
Þá henti hinir hefðbundnu rafbílar ekki til langferða nema helst að sumri til þegar nánast ekkert auka álag er á rafbílinn því um leið og færð spillist, nota þarf miðstöðina að einhverju ráði sé rafmagnið fljótt að klárast.
Rafbílar eingöngu til brúks fyrir innanbæjarakstur
Því henti að mati Kristins rafbílar vel sem bílar til styttri innan borgar og bæjarmarka og tvinnbílar til styttri ferða milli landshluta því þá sé hægt að skipta yfir á bensínmótorinn, hlaða svo bílinn á áfangastað og notast svo við rafmagnið innan bæjarmarkanna.
Þá segir hann hugmyndir þjóðverja um að nota svokallað rafeldsneyti ekki alveg lausar við galla heldur.
„vandinn við rafeldsneyti er að það þarf að búa til úr rafagni og það má ekki nota til þess kolefni sem kemur úr kolefnaeldsneyti heldur kolefni sem kemur úr andrúmsloftinu, yfirleitt hafa menn framleitt metanól sem hefur minni orku en jarðefnaeldsneyti en það er samt sem áður miklu betra en rafgeymarnir“
Þá séu fleiri vandamál sem komi upp ef menn ætli sér að setja stærri geyma í ökutæki til að ná meiri drægni því skyndileg efnahvörf geta orðið í rafgeymum sem valda því að orkan leysist mjög skyndilega úr læðingi og geti valdið því að geymirinn hitni mjög mikið og gæti jafnvel kviknað í honum. Þá eru góð ráð dýr því ekki er hægt að slökkva elda í rafgeymum svo auðveldlega. Það er vegna þess segir Kristinn að orkugjafinn er innan í batteríinu og þar með allt það sem þarf til þess að næra eldinn og því verður slíkur eldur ekki slökktur með vatni.