Orkuverð í Evrópu ekki skýringin á verðbólgu á Íslandi

Orkuverð í Evrópu er ekki skýringin á þeirri verðbólgu, sem er um 10%, á Íslandi um þessar mundir, heldur eru margir aðrir þættir, hér innanlands, sem valda henni. Þetta var meðal þess sem fram kom í síðdegisútvarpinu í dag en þar ræddi Arnþrúður Karlsdóttir við Vilhjálm Bjarnason viðskipta -og hagfræðing, fyrrum lektor við HÍ og fyrrverandi alþingismann, ásamt því að Vilhjálmur situr í stjórn Bankasýslu ríkisins.

Vilhjálmur segir að orkuverð hér á landi hafi haldist stöðugt en önnur orka sem sé innflutt hafi hækkað í verði. Verð á eldsneyti hafi hækkað þegar stríðið í Úkraínu hófst, en eins og landsmenn þekkja, virðast hækkanir á eldsneyti ekki ganga til baka, hér á landi, þrátt fyrir lækkandi verð á heimsmarkaði. Vilhjálmur telur skýringuna á því vera að olíufélögin séu einokunarfyrirtæki sem séu að auki starfandi á fákeppnismarkaði en félögin hér á landi eru aðeins þrjú.

Þá segist Vilhjálmur horfa til matvælamarkaðarins Ef sá markaður er borinn saman við matvælamarkað í Frakklandi þá séu þar fyrirtæki sem framleiði eigin vörur, sem eru frekar dýrar í framleiðslu, en skila samt 10% hagnaði. Hér á litla íslenska markaðnum séu matvörurisarnir, Festi og Hagar með 3-4% hagnað af sinni veltu sem honum finnist mikið á samkeppnismarkaði.

Fasteignaverðið ekki inn í vísitölunni í öðrum löndum

Á Íslandi er fasteignaverð tekið inn í neysluvísitöluna sem eykur verðbólguna. Vilhjálmur segir að verðlag á húsnæði sé tekið með í reikninginn, hér á landi, þar sem það kosti að dvelja í húsnæði og sé flokkað sem neysla. Hann segir að þessi kostnaður sé ekki metinn sem neysla í öðrum löndum Evrópu þar sem löndin hafi ekki komið sér saman um hvernig eigi að mæla húsnæðiskostnað með hliðsjón af neysluvísitölu.

Aðspurður um hvers vegna húsnæðisliðurinn á Íslandi sé ekki tekinn úr neysluvísitölunni, líkt og í Evrópu, segir Vilhjálmur að það sé hans skoðun að húsnæði sé einfaldlega hluti af neyslunni og á fagmáli sé það kallað varanleg neysluvara. Það sé þó til hér á landi önnur mælieining sem sé vísitala án húsnæðiskostnaðar og ef hún væri notuð væri verðbólgan lægri viðurkennir Vilhjálmur.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila