Ráðamenn eyðileggja stjórnarskrána með því að túlka hana

Það sem skemmir stjórnarskrá Íslenska lýðveldisins er sú athöfn ráðamanna að fara að túlka hana eftir því sem hentar þeim hverju sinni. Þetta var meðal þess sem fram kom í þættinum Stjórnsýslan í mínum augum í dag en þar ræddi Kristján Örn Elíasson við þá félaga Arngrím Pálmason og Halldór Sigurþórsson.

Arngrímur segir stjórnarskrána vera mjög gott skjal en því miður sé of sjaldan farið eftir efni hennar því ráðamenn túlki hana eins og þeim sýnist, sem sé þeim óheimilt. Arngrímur segir þetta eiga einnig við um þá sem teljist milliliðir þolenda og gerenda sem oftast eru lögmenn.

„Menn sem eru millliðir byrja að túlka hana fyrir þolandann eða gerandann og það er óheimilt. Það er eingöngu þolandinn sem má túlka sína sýn á hana eða gerandi með sína sýn á hana og þess vegna er svo vont að vera með svona milliliði í réttarsölum sem kallaðir eru lögmenntaðir einstaklingar vegna þess að þeir eru í raun stofnun þegar þeir eru í réttarsölum og þar er verið að tala við þá sem stofnun en ekki verið að ræða við þolanda eða geranda,“ segir Arngrímur.

Þá veltu þeir félagar upp spurningunni hvort ráðherrum sé í raun ætlað að fara með vald.

„Ræður ráðherra eða er hann ráðgjafi milli þings og þjóðar? Af hverju er forseti Íslands yfirmaður ráðherra? Það er vegna þess að forsetinn á að vera fulltrúi þjóðarinnar og hafa hemil á ráðherrum og þess vegna er það forseti Íslands sem á að ráða ráðherra og leysa frá störfum,“ segir Halldór.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila