Ráðherranefnd falið að fylgjast með styrkingu krónunnar

fjarmalaraduneytiRáðherranefnd um efnahagsmál, sem í eiga sæti forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, utanríkisráðherra og innanríkisráðherra, hefur að undanförnu fjallað um viðvarandi styrkingu krónunnar og þá vaxandi hættu á ójafnvægi í hagkerfinu sem slíkt ástand getur skapað. Í tilkynningu segir erð ráðherranefndin hafi því ákveðið að fela sérfræðingum úr forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti að greina stöðuna og koma með tillögur til að stemma stigu við þensluhættu og þeirri hættu sem steðjar að samkeppnishæfni þjóðarbúsins. Gert er ráð fyrir að tillögurnar muni nýtast ráðherranefndinni, m.a. í umræðum um samstillingu hagstjórnar í Þjóðhagsráði.
Í tilkynningunni segir jafnframt að styrking krónunnar sé til marks um bætta stöðu Íslands og að mikil eftirspurn eftir íslenskum vörum og þjónustu styrki gengið sem gerir Ísland að dýrari kosti. Staðan kalli á gamalkunnar hættur og krefjist mikils aga í hagstjórn. Styrking krónunnar og veruleg hækkun launa setji útflutningsatvinnuvegi í vanda og rýri samkeppnishæfni hagkerfisins. Hin jákvæðu skilyrði sem leika nú um efnahagslífið geti því fljótt snúist upp í andhverfu sína. Í tilkynningunni segir enn fremur að mikilvægt sé að greina vel þegar líður að næstu skrefum í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta.  Þá segir að þeim sérfræðingar sem ráðherranefndin felur að fara yfir stöðuna munu á næstu vikum eiga fundi með hagsmunaaðilum til þess að varpa sem bestu ljósi á aðstæður og fá þeirra hugmyndir að úrbótum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila