Ráðstefna um heimilisofbeldi haldin á Þjóðminjasafninu

Ráðstefna um heimilisofbeldi verður haldin 4. október 2017 í Þjóðminjasafninu. Fjallað verður um reynslu af þverfaglegri samvinnu í heimilisofbeldismálum og um þá jaðarhópa sem taldir eru í mestri hættu á að verða þolendur heimilisofbeldis.
Byggjum brýr, brjótum múra er yfirskrift ráðstefnunnar sem er liður í viðamiklu samstarfsverkefni sem Jafnréttisstofa vinnur að með ýmsum aðilum á grundvelli styrks frá Evrópusambandinu. Að samstarfinu koma Akureyrarbær, Reykjavíkurborg, Ríkislögreglustjóri, Lögreglan á Norðurlandi eystra og ráðuneyti dóms- og velferðarmála. Þetta er fyrsta ráðstefnan af þremur sem haldnar verða í tengslum við verkefnið.
Fram kemur í tilkynningu að hér á landi hafi mikið verið litið til Noregs í þróun þverfaglegrar samvinnu gegn heimilisofbeldi. Meðal frummælenda verður Sissel Meling, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Noregi og verkefnastjóri hjá SARA sem heldur erindið: Intimate partner violence risk assessment. Working methods and experiences from the South West police district, Norway.
Peter Neyrod er fyrrum lögreglumaður og nú fræðimaður sem skoðar eðli og umfang heimilisofbeldis. Peter er lektor í gagnreyndri löggæslu við Afbrotafræðistofnun Cambridge háskóla. Peter vinnur að matsrannsókn á samvinnu gegn heimilisofbeldi í Bretlandi og hefur mikla reynslu af skimun fyrir heimilisofbeldi. Um þetta mun hann fjalla í erindi sínu á ráðstefnunni undir yfirskriftinni: Policing domestic violence: the lessons from frontline research for better screening, assessment and intervention. Aðgangur og hádegisverður er þátttakendum að kostnaðarlausu. Ráðstefnan fer fram í Þjóðminjasafni Íslands þann 4. október kl. 10 til 16.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila