Rekstur grunnskóla erfiður í litlum sveitarfélögum

Þegar ákveðið var að færa rekstur grunnskólanna alfarið yfir á sveitarfélögin í landinu var lítið sem ekkert verið að velta því fyrir sér hvort minnstu sveitarfélögin hefðu yfir höfuð bolmagn til þess að geta rekið skóla. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sturlu Kristjánssonar kennara, sálfræðings og fyrrverandi fræðslustjóra í þættinum Menntaspjallið í dag og var hann gestur Valgerðar Snæland Jónsdóttur.

Sturla segir að rökin fyrir að færa rekstur skólanna yfir á sveitarfélögin hafa verið þau að fara að fordæmi hinna Norðurlandanna þar sem sveitarfélögin sjái um þennan rekstur.

Sveitarfélög á hinum Norðurlöndunum ekki sambærileg

Það sé þó erfitt að sjá að þau rök geti haldið. Sturla bendir á að tiltölulega smá sveitarfélög á hinum Norðurlöndunum séu í sumum tilfellum á stærð við allt Ísland. Því sé þar um allt annað umhverfi að ræða og auðvitað ekki hægt að bera saman við sveitarfélög hér á landi.

Sveitarfélögin standa mjög tæpt

Í þættinum nefndi Sturla dæmi úr litlu sjávarþorpi úti á landi þar sem orðið hafi töluverð fólksfjölgun á skömmum tíma. Skólahúsnæðið hafði sprengt utan af sér og ráðist var í að byggja nýtt skólahús. Allt leit vel út í fyrstu og taldi sveitarfélagið sig hafa efni á að klára bygginguna. Þá kom upp sú staða að skyndilega gátu stóru loðnuskipin ekki landað í höfninni nema á flóði þar sem höfnin hafði grynnkað á skömmum tíma. Því var ekkert annað í stöðunni en að fara í að dýpka höfina og fóru þeir fjármunir sem nota átti til þess að klára skólabygginguna í það að dýpka höfnina.

Sturla segir þetta dæmi sýna hvernig lítil sveitarfélög eru verr í stakk búinn til þess að takast á við að byggja og reka grunnskóla og lítið þurfi út af að bregða til þess að illa geti farið.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila