Reynir og Mannlíf dæmd fyrir að taka minningargreinar úr Morgunblaðinu úr samhengi

Fjöldi syrgjandi fólks hafði samband við Morgunblaðið og kvartaði yfir því að Reynir Traustason og Mannlíf væru að taka minningargreinar úr Morgunblaðinu og birtu þær á vef Mannlífs þar sem þær voru svo teknar úr samhengi. Þetta segir Andrés Magnússon fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins í samtali við Útvarp Sögu.

Eins og Útvarp Saga greindi frá í morgun var Reynir og fyrirtæki Reynis Sólartún ehf gert í Héraðsdómi Reykjaness að greiða Morgunblaðinu 50 þúsund krónur og aðstandanda látins manns 300 þúsund vegna greinarskrifa Mannlífs sem byggðu á minniningargreinum Morgunblaðsins.

Andrés segir að fólk sem ritar minningargreinar séu höfundar þess efnis sem hafi treyst Morgunblaðinu fyrir sínu efni til birtingar á fyrirfram ákveðnum stað á ákveðnum tíma en ekki ætlað til birtingar annars staðar.

Greinar Mannlífs gáfu ekki rétta mynd af hinum látnu

Hann segir fólk hafa meðal annars kvartað yfir því að efni minningargreinanna hafi verið tekið úr öllu samhengi svo það gaf jafnvel ekki rétta mynd af hinum látna. Því hafi verið farið fram á að Mannlíf léti af þessari iðju sem það ekki gerði og var vísað til þess að um væri að ræða opinbert efni sem heimilt væri að vísa til. Brá þá Morgunblaðið á það ráð að birta dálk þar sem fram kom að óheimilt væri að birta efnið nema með fengnu samþykki. Dálkurinn hefur síðan verið birtur með reglulegu millibili til þess að minna á fyrirkomulagið

Andrés segir að það verði að hafa í huga að þeir sem riti minningargreinar sé syrgjandi fólk í afar viðkvæmri stöðu á þeim tímapunkti sem hafi ætlað efnið til birtingar í Morgunblaðinu en ekki annars staðar og því hefðu Reynir og Mannlíf átt að virða umkvartanir þess.

Dómurinn hefur ekki enn verið birtur á heimasíðu Héraðsdóms Reykjaness

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila