Ríkið brotlegt gegn rétti til frjálsra kosninga

Það er ákveðinn áfellisdómur að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt íslenska ríkið brotlegt gegn rétti til frjálsra kosninga vegna talningarmálsins svokallaða í Norðvesturkjördæmi. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Arnþrúðar Karlsdóttur og Péturs Gunnlaugssonar í dag en gestur þeirra var Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins.

Eyjólfur segir að láta þingið sjálft skera úr um eigið kjör sé svo sem löng hefð fyrir og aðar þjóðir hafi svipað fyrirkomulag en Arnþrúður bendir á að það sé ákveðinn áfellisdómur að ekki séu önnur úrræði til þess að skera úr um slíkan vafa því þarna séu þingmenn í raun að skera úr um eigin hagsmuni.

Kjörgögn ekki í læstu rými

Segir Arnþrúður málið sér í lagi alvarlegt því nú séu forsetakosningar á næsta leyti og í dómnum séu meðal annars gerðar athugasemdir við að kjörgögn hafi ekki verið í læstu rými. Tekur Eyjólfur undir að vinnulagið hafi alls ekki verið nógu gott því þegar talningu lauk hafi kjörgögnin verið skilin eftir á borðunum í ólæstu rými og mannskapurinn sendur heim að sofa í stað þess að klára allan frágang.

Verður að láta lögregluna flytja kjörgögn

Arnþrúður benti á að skilaboðin sem fælust í dómi MDE væru þau hvort ekki væri hér hægt að halda kosningar hér á landi án þess að slíkur vafi komi upp. Þá sé búið að breyta til dæmis fyrirkomulagi um flutning kjörgagna á þann hátt að lögregla sjái ekki lengur um að koma kjörgögnum á talningarstað eins og gert var áður fyrr.

Rafrænt ferli í kosningum hefur ekki gefist vel

Þá var í þættinum rætt um fyrirkomulag kosninga og hvort ekki hentaði betur að kjósa með gamla laginu í stað þess að færa allt í rafrænt ferli. Það hafi til að mynda ekki gefist vel að hafa rafrænar atkvæðagreiðslur í Eurovision. Þá hafi einnig verið mikill vandræðagangur við meðmælendalista nú í aðdraganda forsetakosninganna á Island.is því það hafi komið fyrir að fólk sem hafi ætlað að rita nafn sitt á meðmælendalista hafi óvart skráð sig í framboð.

Hlusta má á ítarlegri umfjöllun um málið í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila